Framboð Sósíalista í borginni – Laufey Líndal Ólafsdóttir

Laufey Frétt

Ég heiti Laufey og er fædd árið 1974. Ég er 47 ára einstæð móðir, meistaranemi, stjórnmálafræðingur, plötusnúður, aktivisti og ýmislegt fleira. Ég á 3 börn og 2 ketti og ég leigi hjá Félagsbústöðum. Ég sit í stjórn EAPN á Íslandi fyrir hönd Félags einstæðra foreldra og er einnig varamanneskja í stjórn Samtaka leigjenda ásamt því að vera fulltrúi Sósíalista í stjórn Félagsbústaða.
Ég fæddist reyndar á Selfossi, en hef alist upp í miðbæ Reykjavíkur frá blautu barnsbeini. Ég gekk í Austurbæjarskóla og hélt áfram í þeim skóla eftir að mamma mín náði að kaupa íbúð í gegnum Verkamannabústaði á Grandanum árið 1984. Þarna kynntist ég strætókerfi SVR vel af eigin raun þar sem ég byrjaði að taka strætó í skólann. Á þessum tíma gekk strætó á korters fresti á virkum dögum og hálftíma fresti á kvöldin (eftir kl. 7) og um helgar. Strætó gekk líka inn í öll hverfi og var t.d. beint fyrir utan húsið hjá okkur. Ég er enn að taka strætó í dag og finnst frekar fyndið (eða grátbroslegt) þegar borgaryfirvöld stæra sig af þjónustu strætó, sem er á margan hátt lakari í dag en hún var fyrir 30-40 árum. Ég skil ekki alveg hvernig það gengur upp eða hvernig er hægt að réttlæta slíka afturför, en það segir kannski til um forgangsröðun og hugsunarhátt borgaryfirvalda síðustu áratugi þar sem kapítalismi, einstaklings- og nýfrjálshyggja hafa algerlega ráðið för.
Árið 1992 fluttist ég til London og átti eftir að festast þar í nokkur ár. Í London eignaðist ég mitt fyrsta barn og kynntist fólki frá bókstaflega öllum heimshornum og kynntist þar fegurð fjölmenningarsamfélagsins. Bretland á þessum árum var ekki beint mekka sósíalismans, en þó með ágætlega öflugt velferðarkerfi og það var mun auðveldara fyrir fátækt fólk að lifa af á þessum tíma í London en í Reykjavík. Ég man enn hvað mér brá þegar ég flutti „heim“ árið 1999 og komst að hvað allt var flókið og hvernig sífellt var rukkað fyrir alla hluti sem sjálfsagt þykir að séu ókeypis annars staðar. Skólamáltíðir, frístund barna, læknisheimsóknir…. Það er sama hvert litið er. Ísland er á alla kanta mun skyldara Bandaríkjunum þegar kemur að velferðarþjónustu en öðrum Evrópuríkjum. London hefur farið mjög aftur í þessum málum á undanförnum árum og ég sé svipaða þróun á mörgu þar og á Íslandi.
Ég flutti aftur til Íslands í lok ársins 1999 en það ár lenti ég í þeim harmleik að missa nýfætt barnið mitt. Ég og elsta dóttir mín, sem þá var 4 ára, bjuggum fyrst um sinn hjá mömmu minni en fórum svo að leigja. Ég sótti fljótlega um félagslega íbúð og var að vinna ýmis hlutastörf, fyrst um sinn á bar og svo í fatabúð. Ég var líka að vinna sem plötusnúður, en það starf var meira tilfallandi, enda erfitt að sinna því sem einstæð móðir. Við fluttum árlega á þessum tíma þar sem leigumarkaðurinn var hræðilegur. Það var ekki fyrr en við loksins fengum félagslega íbúð sem við gátum komið okkur fyrir, en þá var dóttir mín orðin 9 ára og að byrja í fjórða grunnskólanum á sinni stuttu ævi. Þá hafði yngri dóttirin bæst í hópinn, en hún var þá þriggja ára og að flytja í þriðja sinn.
Við fluttum ekki aftur fyrr en ég þurfti að sækja um stærri íbúð hjá Félagsbústöðum eftir fæðingu sonar míns 2009. Það voru engar íbúðir fáanlegar í miðbænum af þeirri stærð sem við þurftum svo við þurftum að flytja í hverfi 104. Það var ekki auðveld ákvörðun eftir allan undangenginn þvæling, en við fluttum. Það er svo margt sem tínist til sem er afleiðing af stöðugum flutningum. Eitt er rótleysi, annað er óöryggi og í viðbót er tregða til að koma sér almennilega fyrir þar sem þú treystir því ekki að þetta sé heimili til frambúðar.
Ég hef unnið náið með borgarstjórnarhópi Sósíalista undanfarin 4 ár og það er svo margt sem við höfum verið að berjast í og læra á þessum tíma. Það er vissulega stærsta vandamálið hversu langt virðist oft vera á milli ákvarðanatöku og fólksins sem verið er að taka ákvarðanir um og hversu langar boðleiðir virðast vera fyrir allar umkvartanir borgarbúa. Fólk upplifir mikla hundsun af hálfu kerfisins og þetta skapar mikla óþarfa togstreitu sem brýst svo út á ýmsum stöðum. Mál eru oft að velkjast í kerfinu í lengri tíma og á meðan safnast utan á þau og þau verða loks óþarflega stór og óviðráðanleg. Úrræði koma gjarnan seint og eru þá ekki að taka á nema hluta vandans. Það er einhver mantra hjá íslenskum yfirvöldum að vera meira í því að plástra sárin en að koma í veg fyrir meiðslin. Þetta á við á öllum stjórnsýslustigum og þarna þarf að breyta almennu hugarfari. Það er einfaldlega of dýrt að láta mál bíða, hvort sem talið er í krónum, geðheilsu eða mannslífum.
Húsnæði á ekki að vera markaðsvara. Það eru mannréttindi að eiga heimili og slíkt á ekkert erindi inn í hin svokölluðu „lögmál markaðarins“. Sveitarfélög eiga að byggja fólki heimili sem eru seld og leigð út án hagnaðarsjónarmiða og þar eiga engir aðilar heima sem eru að hagnast á uppbyggingu, útleigu eða sölu. „Félagslegt“ húsnæði á ekki eingöngu að vera afhent sem „ölmusa“ til þeirra sem hafa lent í áföllum og hrakförum í lífinu, heldur sjálfsögð réttindi fólks til að eiga heimili, hvort sem það vill kaupa eða leigja. Verkamannabústaðakerfið var vísir að slíku kerfi, en var eyðilagt í nafni markaðshyggju. Við viljum markaðshyggjuna út og mannúðina inn!
Það er gríðarlega mikilvægt að við förum að hugsa málin í stærra samhengi og leggja meira fjármagn í það sem skilar okkur raunverulega aukinni velsæld. Það að veita fólki aðstoð þegar það þarf hana er einfaldlega mun ódýrara þegar upp er staðið en að bíða eftir að það sé svo illa statt að það gefst upp. Það að styðja einstakling til sjálfshjálpar er ekki bara fyrir þann tiltekna einstakling, heldur einnig fyrir fjölskyldu hans og nánustu aðstandendur.
Laufey Líndal Ólafsdóttir býður sig fram fyrir Sósíalista í Reykjavík þann 14. maí.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram