Framboð Sósíalista í Borginni – Oddný Eir Ævarsdóttir

Laufey Frétt

Ég heiti Oddný Eir Ævarsdóttir og er rithöfundur og einstæð móðir og ég bý í Reykjavík.
Reykjavík er ein mengaðasta borg álfunnar. En hún er líka eitt stærsta friðland fugla í Evrópu og við eigum dásamlegar almenningssundlaugar og útivistasvæði, fjörur og fjöll í nálægð. Við þurfum að vernda náttúruna í borginni, hafa orkuskiptin á forsendum velferðar almennings en ekki velferðar stórfyrirtækja og byggja upp framsýnar umhverfisvænar almenningssamgöngur, borgarlínur og strætóa, lestir, hjól o.fl. Halda áfram að byggja upp borg þar sem náttúruvernd er samofin efnahags- og félagslegu réttlæti, dýra- og mannréttindum í kærleiksríkri umbyltingu.
Sósíalisminn er eina tryggingin fyrir lýðræðislegri ákvarðanatöku í málefnum sveitafélaga jafnt sem ríkis. Ráðríki eignamanna þegar kemur að skipulags- og samgöngumálum og innherjatengsl eru það viðamikil í núverandi stjórnfyrirkomulagi að almenningur og umhverfi mun alltaf lúta í lægra haldi, hvað sem líður grænum loforðum og skattaskjólum. Við lifum á ögurstundu: Átök um auðlindir munu rýra almenningssvæðin ef við stoppum ekki við og stokkum upp á nýtt. Hið nýja græna er eldrautt.
Góð spurning: Hvenær varðstu sósíalisti? Ég man ekki eftir einni tiltekinni stund, bara varð það smám saman eða var það kannski alltaf. Ég er alin upp í gagnrýnni orðræðu um sósíalisma og stúderaði líka pólitíska heimspeki um tíma, skoðaði grundvöll lýðræðisins og undirrót alræðis og fylgdi eftir endurnýjun sósíalískra hugsjóna eftir fall múrsins. Bjó í Búdapest um tíma og gerði mér grein fyrir því að kommúnisminn gamli átti lítið skylt við sósíalisma, hann var miklu líkari rótgrónum kapítalisma og úrsérgenginni nýfrjálshyggju.
Ég beitti mér fyrir náttúruvernd gegn yfirtöku auðvaldshringja á náttúruauðlindum almennings. Ég lifði í þeirri von að að skapandi kraftur mætti komast í tengsl við kapítalískt hreyfiafl og búa til sprotaumhverfi sem myndi skora mengandi stóriðnað á hólm. Ég trúi því enn að ólíka svið samfélagsins verði að skarast og að hagfræðin hljóti að verða græn. En hinar grænu lausnir kapítalismans hafa flestar fallið á prófinu og ég sannfærist æ meir um að aðgerðir í umhverfismálum verði að vera eldrauðar. Og það væri ágætis byrjun að uppræta innherjasvindl og spillingu í útboðum. Vernda auðlindir okkar og áralanga uppbyggingu á hitaveitu og orku.
Eldrauð áminning, alarm!!! : Ég held að nýr sósíalismi snúist um nýtt sjónarhorn á framtíðina, sjónarhorn barnsins: Ef útgangspunkturinn er sá að hvert einasta barn í heiminum fái tækifæri til að blómstra – og fá hreint vatn, hreint loft, andrými og aðgang að sameiginlegum auðlindum jarðar – þá teiknast upp allt annars konar veruleiki. Þar fá sprotafyrirtæki og stærri fyrirtæki að blómstra í tengslum við listir og listiðnað, ferðamennsku, nýsköpun, velferð og vísindi en alltaf út frá sjónarhorni barnsins, almennings og náttúrunnar en ekki alltaf á kostnað auðlinda almennings og framtíðar barnsins þegar allt kemur til alls og farið er yfir heildarmyndina.
Borgina verður að hugsa alveg heildstætt út frá þessu sjónarhorni. Ekki út frá ársreikningum stórfyrirtækjanna heldur ársreikningum fjölskyldunnar sem býr í borginni. Það er eins og sjálfsagt mál en í raun kallar það á algjöra hugarfarsbreytingu og töluverðar kerfisbreytingar. Það kallar fyrst og fremst á alvöru virkjun lýðræðislegra ferla, þar sem valdsvið alþjóðlegra verktaka og stórfyrirtækja er takmarkað í ljósi réttlætis.
Ég treysti Sönnu Magdalenu til að leiða okkur áfram í þessu rosalega mikilvæga velferðar- og lýðræðisferli.
Oddný Eir Ævarsdóttir býður sig fram fyrir Sósíalista í Reykjavík þann 14. maí.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram