Afleiðingar misskiptingar

Andrea Helgadóttir Pistill

Andrea Helgadóttir, varaborgarfulltrúi Sósíalista hélt sína fyrstu ræðu í Borgarstjórn Reykjavíkur um orðræðuna í samfélaginu, ofbeldi og misskiptingu. Tilefnið var umræða í Borgarstjórn um stöðu flóttamanna, heimilislausra karlmanna og ofbeldi á meðal ungmenna. Þemað í ræðu hennar er um misskiptingu og afleiðingar hennar.
„Hugtakið efnahagslegt ofbeldi er aðeins síður þekkt hugtak en annað ofbeldi sem viðgengst í samfélaginu, en fátækt, alveg sérstaklega fátækt í ríku samfélagi, það er efnahagslegt ofbeldi.“

„– Hið öfgafulla samfélag – Orðræðan –

Í umtali um aðra sem byggja þetta samfélag með okkur hefur smám saman farið að viðgangast alveg ofboðslega sérkennileg, yfirborðskennd og öfgafull orðræða, eins og svosem víða annarsstaðar. Á það sérstaklega við þegar fólk í viðkvæmri stöðu vekur athygli á aðstæðum sem þeim er boðið uppá, biður um skilning eða krefst einhverra úrbóta á sínum málum. Sömuleiðis gegn öðrum sem tala opinberlega máli þeirra. Orðræða sem festir sig sessi þegar henni er leyft að eiga sér stað á opinberum vettvangi, og lyftir auðvitað hömlum af því sem álitið er að megi viðgangast á lokaðri vettvangi.

Öfgakenndum mönnum er gefið leyfi til að ástunda sínar öfgar.

Ábyrgð okkar sem komum fram sem fulltrúar fólks á opinberum vettvangi er mikil og þau okkar sem færa hið leyfilega alveg út að ystu mörkum þurfa að gera sér grein fyrir að með þeirri tilfærslu í opinberri umræðu sé óhjákvæmileg sambærileg tilfærsla jaðarsins. Málfrelsi fylgir ábyrgð. Stöðu okkar hér í þessum sal fylgir enn meiri ábyrgð.

Skilaboðin til ákveðinna þjóðfélagshópa í vestrænni menningu eru: Þú munt hreppa hnossið, sætu stelpuna, viðurkenningu eða farsæld með því að gera allt rétt (kannski þarftu ekki einu sinni að gera allt rétt). Þú munt alltaf vera aðalpersóna í öllum uppsetningum í leikhúsi samfélagsins. Aðrir mega koma fram en engar áhyggjur, þau verða í aukahlutverkum, kannski ein kona og einn einhver “minnihlutahópur”. Fá ekkert að tala mikið, við erum ekki einu sinni að pæla í að gefa þeim nafn endilega. Svona er hin staðaltýpíska vestræna menning. Þetta rætist sjaldnast svona í raunveruleikanum án fyrirhafnar, og það getur reynst sumum mjög erfitt að horfast í augu við. Kannski eru þessi vonsvik að verða einhverskonar manndómsraun til að stíga inn í fullorðinssamfélag nútímans, sem mörgum gengur býsna vel – en öðrum því miður alls ekki.

Ég fór af forvitni í mjög óformlega smárannsókn í frekar vandað bókasafn leikskóla í þeim tilgangi að sjá hvernig kynjaskiptingin væri. Það tók ekki langan tíma að sjá að kvenpersónur í aðalhlutverki voru í algjörlega hverfandi minnihluta og þær kvenkyns aukapersónur sem yfirhöfuð fengu nafn hverfandi minnihluti af þeim. Er það ekki alveg magnað? Stelpur alast upp við að teygja sjálfsmynd sína þannig alveg frá því að þær eru agnarlítil börn, að þær geta speglað sig í karlkyns aðalsögupersónum, lifað sig inn í heim þeirra – en strákarnir… þeir fá líklega litla sem enga þjálfun í því. Sama má auðvitað segja um alla minnihlutahópana í samfélaginu. Kannski er það þetta sem endurspeglast í þeirri staðreynd að þeir hér á vesturlöndum sem bregðast við áskoruninni um breytt samfélag með hatursfullum og desperat hætti, eins og með því að leggja á ráðin um ofbeldi eða morð á öðru fólki eru nánast undantekningarlaust hvítir karlmenn. Þeir fengu kannski ekki sambærilega þjálfun í að setja sig í spor annarra sem standa frammi fyrir allt öðrum áskorunum en þeir og eru með ólík viðhorf til lífsins en þeir. Þeir upplifðu þetta sem persónulegt loforð, vertu til og þú munt uppskera.

Það er ástæðan fyrir því að ég kem hér upp með þessi skilaboð. Við lifum ekki í tómarúmi. Sviðið er sett, leikararnir eru klæddir og komnir á fjalirnar.

– Hið öfgafulla samfélag – Misskiptingin –

Hugtakið efnahagslegt ofbeldi er aðeins síður þekkt hugtak en annað ofbeldi sem viðgengst í samfélaginu, en fátækt, alveg sérstaklega fátækt í ríku samfélagi, það er efnahagslegt ofbeldi.

Það er kerfisbundið áreiti, ofbeldi og kúgun sem er viðhaldið gegn fólki sem verður undir efnahagslega, með hugmyndum um það að hinir hæfustu eigi allt gott skilið en þeir sem standa verr eigi alla sína ógæfu skilið enda stafi hún af þeirra eigin vanhæfni, kannski leti eða skussaskap, jafnvel heimsku. Hinu svokallaða verðleikaræði, eða meritocracy á ensku. Kerfinu er hampað sem sanngjörnu, því að auðvitað á fólk að fá að njóta afraksturs þess að vera duglegt… Hví ætti það ekki að leyfast? Allir fái jú sömu tækifæri til að komast áfram – er haldið fram – og þau sem falli í þeirri raun hafi bersýnilega bara ekki lagt sig almennilega fram. Það þurfi jú að vera hvati til þess að fólk nenni að leggja sitt af mörkum eða hvað?

Þau sem passa ekki í manneskjulöguðu reitina sem búið er að skera út fyrir þau í samfélagi sem er skipulagt á þessum forsendum, þau verða afgangs. Það er ekki pláss fyrir þau.

Þetta er viðmót sem samfélagið byggir inn í öll sín kerfi, það er komið mismunandi fram við fólk sem er efnað, fágað og vel til fara heldur en þau sem hafa ekki efni á að kaupa sér smart ný föt og að láta aðra um að klippa á þeim neglurnar og snyrta á þeim hárið. Það er frekar tekið mark á þeim þegar þau taka til máls, hleypt að hlaðborðinu fyrst.

En velgengni, metnaður og framasækni þýða ekki að þú sért betri manneskja. Það þýðir kannski samt að þú ferð að álíta það sjálfur.

Við manneskjur erum dálítið gölluð að því leyti að fólk fer mjög auðveldlega að líta á yfirburðastöðu sem afleiðingu þess að það sé yfirburða manneskjur …kannski ekki allir, sumir láta sér nægja að finnast þeir alla vega hafa gert sitt til að öðlast hana og megi alveg bera það með stolti eins langt og það nær. Mögulega bara pínulítið klókari en hinir sem standa neðar í stiganum, vel til þess fallin að útskýra fyrir þeim hvernig hlutirnir hanga saman og hvernig þeir ættu að haga lífi sínu.

Í þess háttar kerfi verður aðstoð við þau sem undir hafa orðið alltaf einhverskonar ölmusa, hér og þar þurfi að aumka sig yfir fólk, en að það endar oft á að vera á forsendum þess sem aumkar sig, ekki þess sem hefur orðið undir.

Sósíalistar hafna því. Það er ekki jafnt gefið í þessu spili og það fá ekki allir sömu spilareglurnar. Það ER pláss fyrir þau sem passa ekki í hólfin í kerfinu, það er hægt að gefa pláss og sýna virðingu, maður hefur bara sveigjanleg hólf. Þau eru manneskjur með allan þann rétt til mennskrar tilveru eins og fólkið sem keyrir í vel bónuðum nýjum bíl milli staða í frostinu með sætishitarann í gangi.

Mótmælum fólks sem er snyrtilegt til fara er mætt á allt annan hátt en þeirra sem skila ekki hagnaði í excel skjalið hjá einhverjum. En þeirra mótmæli snúast samt um grundvallarmannréttindi, ekki um það að fá að komast aftur í vinnuna, heldur það að fá að sleppa við að vera að krókna úr kulda einhversstaðar úti í vetur.

Ef hugmyndin er að fólk eigi ekki að vera í gistiskýli yfir daginn, þá þarf einfaldlega að vera einhver annar staður innandyra sem er ætlaður þeim á meðan. Ef sá staður er ekki til ennþá þá þarf að aðlaga sig að þeirri stöðu á meðan með þeim tækjum sem okkur standa til boða strax í dag.

Það er ekki neitt annað en grimmd að úthýsa manneskjum úr hlýju húsaskjóli um vetur.

– Hið öfgafulla samfélag – Ofbeldið –

Ástæðan fyrir að ég hef ákveðið að tala um hið öfgafulla samfélag hér í dag, er sú að misskipt samfélög eru samfélög öfga. Öfga og vaxandi grimmdar.

Ástæðan er sem sagt sú að Ísland er farið að sýna dæmigerð sjúkdómseinkenni misskiptingar. Staðreynd sem virðist ekki fá mikla viðurkenningu eða vekja áhuga. Það má tala um einkennin, og einhver viðbrögð við þeim en um leið og einhver fara að beina sjónum fólks að undirliggjandi meininu, vaxandi misskiptingu, og krefjast þess að horfið sé af þeirri braut, virðast viðbrögðin vera að slökkva ljósin og gleyma því sem fyrst. Fara svo kannski heim og skrifa eitthvað ljótt um viðkomandi.

Misskipting tekna og eigna eykst á Íslandi. Félagslegur hreyfanleiki minnkar. Lífslíkur fólks í lægsta launabilinu eru að styttast, meira að segja kvenna, á meðan heildarlífslíkur þjóðarinnar lengjast. Það er mjög sláandi, enda lífslíkur aðeins lengst allt fram að þessu í öllum tekjubilum.

Misskiptingu fylgir ofbeldi og glæpir. Það er mjög vel þekkt staðreynd. Kenningin er að í samfélagi þar sem misskipting er mikil sé um að ræða samfélag sem byggist upp á samkeppni milli þegnanna um gæðin, þeir hæfustu og sömuleiðis þeir grimmustu, verði ofaná og þannig hríslast samkeppni og grimmd um alla króka og kima þess.
Samfélög þar sem jöfnuður ríkir séu hins vegar byggð upp á því upprunalega módeli sem manneskjur eiga velgengni sína sem dýrategund að þakka – samvinnumódelinu.

Viðbrögð þeirra sem skrifa uppá keppnismódelið við aukningu grimmdarinnar sem fylgir meiri samkeppni um samfélagslegu gæðin eftir því sem minna er til skiptanna fyrir sífellt stækkandi hóp, eru enn meiri grimmd og harka: Löggæsla, persónueftirlit og refsingar.

Börn, ungmenni – manneskjur – spretta ekki upp í tómarúmi. Þau mótast af sínu umhverfi, af því hvernig búið er um þau og því hvernig þau spegla sig í umhverfinu, og því hve vel undirbúin þau eru fyrir það mótlæti sem þau munu verða fyrir á lífsleiðinni. Þau hafa að sjálfsögðu einhvern grunn sem byggt er á en það vita öll sem til þekkja að brugðið getur til beggja vona ef aðstæður bregðast illa þrátt fyrir besta mögulega grunn.

Það er auðvitð ekki þannig að nú sé kannski bara í tísku að ganga með hníf í vasanum eins og börn gengu með tamagochi einhvern annan áratuginn.

Eru börn ekki bara berskjölduð fyrir öfgakenndara og ofbeldisfyllra umhverfi, hreinlega vegna þess að samfélagið okkar er að verða öfgakenndara og ofbeldisfyllra? Er það ekki vegna þess að börn eru farin að búa við meira streituvaldandi og öfgakenndar aðstæður í sínu lífi? Er það vegna þess að sumum börnum er meinað um það að spegla sig í samfélaginu, fleiri og fleiri manneskjur fá ekki að tilheyra og finna sig því jaðarsettari en áður, en er mætt með hörku í jafningjahópnum þegar þau ljá máls á þeirri stöðu og þau fara að upplifa ótta og óöryggi.

Þetta eru aðstæður sem börn búa við, og það er mikilvægt að bjóða börnum upp á öruggt og gott samfélag til að alast upp í, án ótta.

Við styðjum það að tekið verði á þessu vandamáli sem ógnar mjög öryggi barna, en við viljum ekki horfa upp á það að skautað sé framhjá rót vandans sem er aukin misskipting í íslensku samfélagi.

Við skulum ekki láta þetta samfélag okkar halda áfram niður þessa hörmulegu braut. Við þurfum ekki meiri grimmd, okkur vantar ekki fleiri eða ríkari auðkýfinga, við þurfum samfélag fyrir manneskjur.

Það græða svo sannarlega allir á því. Líka auðkýfingarnir …þó þeir geri sér ekki grein fyrir því ennþá.“
Erindi flutt 18. október 2022 í Borgarstjórn Reykjavíkur

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram