Sósíalískir feministar styða kvennaverkfall

Stjórnir flokksins Tilkynning

Sósíalistaflokkur Íslands styður kvennaverkfallið þriðjudaginn 24. október af heilum hug og hvetur konur og kvár til að leggja fram skýrar kröfur og snúa ekki aftur til vinnu fyrr en gengið hefur verið að þeim. Við lifum tíma þar sem alþýða manna er knúin til að taka upp harðari baráttu ef hún vill ekki myljast undir kapítalismanum. Valkostirnir eru aðeins tveir, að berjast gegn kapítalismanum eða gefast upp. 

Í formála Feminisma fyrir 99 prósentin – Manifestó segir:

„Við getum þakkað nýfrjálshyggjunni fyrir þennan skort á valmöguleikum: þessi einstaklega árásargjarna, fjármálavædda gerð af kapítalismanum sem haft hefur tangarhald síðustu fjörutíu ár. Eftir að hafa eitrað andrúmsloftið, hæðst að öllum lýðræðistilraunum, ýtt öllu félagslegu út á bjargbrúnina, og stórskaðað lífsskilyrði langflestra, þá hefur þetta form kapítalismans gert það sem er undir í öllum félagslegum hreyfingum töluvert meira og alvarlegra – í raun umbreytt hógværri viðleitni í harða baráttu upp á líf og dauða. Undir slíkum kringumstæðum er tíminn til að sitja á hliðarlínunni liðinn, og femínistar verða einfaldlega að taka afstöðu: munum við halda áfram að leitast eftir „jöfnum tækifærum til kúgunar“ á meðan jörðin brennur? Eða munum við frekar endurhugsa réttlæti kynjanna á andkapítalískan hátt – sem leiðir okkur út úr núverandi krísu til nýs samfélags.“

Sósíalískir feministar, sem starfa inn Sósílaistaflokksins, hafa listað upp kröfur feminista á þessu síð-nýfrjálshyggjutímum svo:

Sósíalískir femínistar eru fólk sem hafnar kapítalísku samfélagsskipulagi og stjórnarfari og krefst mannúðlegra kerfis byggðu á hugmyndafræði sósíalisma þar sem mannréttindi, mannhelgi, jafnrétti og systkinalag er haft að leiðarljósi.

Kapítalisminn eða auðvaldsskipulagið sem við búum við í dag þar sem arðurinn af eignum og atvinnutækjum, fasteignum og fjármagni, jafnvel auðlindum okkar rennur til fárra útvalinna með vaxandi ójöfnuði á öllum vígstöðvum er óásættanlegur.

Við neitum að láta jaðarsetja okkur á grundvelli kyns, kynhneigðar, kyntjáningar, kynvitundar, húðlitar, getu, líkamlegs eða andlegs atgervis, holdafars, tungumálakunnáttu, menntunar, ríkisfangs, trúar, uppruna, menningar eða annarra eiginleika sem skapa okkur sérstöðu innan mannlegs samfélags og við neitum að láta etja okkur saman. Við viljum frelsi til að fagna þessum einkennum án þess að þau séu nýtt sem ástæða til að skerða mannréttindi okkar eða almenn lífsgæði.

 • Við krefjumst þess að allt fólk búi við efnahagslegt öryggi og réttlæti.
 • Við krefjumst afnáms láglaunastefnunnar og að verðmætamat á störfum samfélagsins sé endurmetið þannig að hefðbundin kvennastörf og ósýnileg vinna skili sér í viðunandi lífsviðurværi til jafns við önnur störf.
 • Við krefjumst þess að allt fólk búi við húsnæðisöryggi.
 • Við krefjumst þess að engin manneskja þurfi að búa við skort á heilsusamlegum mat eða drykkjarvatni.
 • Við krefjumst þess að allt fólk búi við frið og jafnrétti og að engin manneskja þurfi að þola ofbeldi eða ofsóknir.
 • Við krefjumst þess að allt fólk hafi raunverulegt aðgengi að öflugri velferðarþjónustu þar sem úrlausnir miðast að þörfum þess.
 • Við krefjumst þess að allt fólk geti búið við líkamlegt og andlegt heilbrigði og hafi raunverulegt aðgengi að heilbrigðisþjónustu.
 • Við krefjumst þess að allt fólk hafi raunverulegt aðgengi að menntun og að öll mismunun til náms sé afnumin á öllum námsstigum.
 • Við krefjumst þess að raddir jaðarsettra hópa samfélagsins heyrist og að á þær sé hlustað.
 • Við krefjumst þess að allt fólk eigi þess kost að geta tekið virkan þátt í samfélaginu og hljóti viðeigandi aðstoð til að gera þá þátttöku mögulega.
 • Við krefjumst þess að sjálfsákvörðunarréttur fólks yfir eigin líkama sé virtur, fólk hafi óskorðaðan rétt til þungunarrofs, stjórn á frjósemi sinni og fullt vald yfir eigin kynfrelsi.
 • Við krefjumst þess að engin manneskja neyðist til þess að selja aðgang að líkama sínum til þess að komast af og að engin manneskja geti nýtt sér neyð annarrar sér til framdráttar.
 • Við krefjumst þess að réttur barna sé raunverulega virtur óháð stöðu foreldra þeirra og fjölskyldugerð.
 • Við krefjumst þess að baráttan gegn mansali og þrælkun sé tekin alvarlega og að fórnarlömb slíkra glæpa njóti sérstakrar verndar og fái viðunandi aðstoð hér á landi.
 • Við krefjumst þess að Ísland taki upp sósíalískt stjórnarfar og hætti þátttöku sinni í kapítalískum stofnunum og hernaði.
 • Við krefjumst þess að unnið sé markvisst að náttúruvernd og gegn þeirri eyðileggingu og loftslagshamförum sem kapítalismi og nýfrjálshyggja hafa í för með sér.
 • Við krefjumst þess að þjóðir vinni saman að úrlausnum í friðar- og loftslagsmálum og að mismunun á grundvelli ríkisfangs verði afnumin.
 • Við krefjumst þess að fólki sé ekki refsað eða mismunað fyrir að passa ekki í fyrirfram ákveðna ramma kerfisins og samfélagsins. Það skiptir máli að ólíkar sjálfsmyndir allra fái notið sín, svo sem sjálfsmyndir transkvenna sem og alls trans- og kynsegin fólks. Þá sé fólki ekki refsað fyrir að vilja ekki eignast börn eða lifa í hefðbundnu parasambandi eða velja að vera einhleypt með eða án barna.
 • Við krefjumst þess að fæðingarorlof verði skilgreint sem réttur barnsins en ekki tengt við áunnin réttindi foreldra á vinnumarkaði. Upphæð skal miðast við viðunandi framfærslu fjölskyldunnar og tryggja það að barn þurfi ekki að hefja líf sitt í fátækt.
 • Við krefjumst þess að allri upplýsingaskyldu sé sinnt sem skyldi til dæmis í formi þýðinga og í auðlesnu máli fyrir þá sem það þurfi svo enginn verði af réttindum sínum af óþörfu.
 • Við krefjumst brauðs OG rósa fyrir allt fólk!

Samið og samþykkt á sameiginlegum fundi framkvæmda- og málefnastjórnar Sósíalistaflokksins

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram