Kremena: Þeir sem hafa peninga enda á að hafa völdin

Hin Reykjavík


Hin Reykjavík

„Ég kom til Íslands frá Búlgaríu fyrir aldamótin, 31 árs gömul. Árið 2011, þegar ég var 49 ára, skildi ég við manninn minn. Það hafði mikil áhrif á mig, ég veiktist andlega og varð öryrki.

Bæturnar sem ég fæ eru bara brot af því sem ég þarf. Mér var sagt að ég gæti athugað rétt minn á bótum frá Búlgaríu til að bæta upp í. Þar hafði ég verið í háskóla og eignast barn, en bara unnið í fimm ár. Þau sögðu mér að ég ætti rétt á tólf hundruð krónum á mánuði þaðan!

Ég var tvö og hálft ár í starfsendurhæfingu og fékk eftir það dálitla vinnu sem liðsmaður. Það lætur mér líða mikið betur að fá að hjálpa fólki að starta lífinu sínu. Svo skúra ég hjá Geðhjálp og Geðheilbrigðismiðstöð tvo tíma á dag. Það er mjög gott að ræða við fólkið þar, þau eru með puttann á púlsinum. Það hjálpar líka að finna að vinnuveitandinn skilji hvað er að og sýni manni virðingu.

Skerðingar á bótum eru sjálfvirkar, það er einhver tölva sem reiknar þær út frá tekjum og öðru. Ég skil ekki hvernig það kerfi virkar, það bara segir mér hvernig skerðingar ég fæ. Þetta munar ekki miklu, stundum eru teknar fjögur, fimm þúsund krónur. En ef ég fæ smá auka pening má ég ekki nota hann, ef vélin skyldi reikna út seinna að ég þurfi að endurgreiða hann.

Leigan er stærsti útgjaldaliðurinn minn. Hún er 215.000 á mánuði. Ég hef verið í níu ár á biðlista eftir félagslegri íbúð. Þar væri leigan mín sennilega hundrað þúsund krónum lægri. Ég vona innilega að ég komist í þannig íbúð.

Það sem bjargar mér er að sonur minn er ekki orðinn átján og býr hjá mér. Það hækkar húsaleigubæturnar og ég fæ barnalífeyri og meðlag. Það hættir þegar hann verður átján ára í febrúar. Ég veit ekki hvað gerist þá. Ég vil ekki hugsa um það.

Það hjálpar ekki með andlegan bata að vera með þennan stöðuga kvíða. Ég hef lækni og fjárhagsráðgjafa sem ég get talað við, en enginn getur tekið af mér áhyggjurnar. Nú er ég 56 ára. Hvað tekur við þegar ég fer á ellilífeyri? Þetta er endalaus óvissa. Mér líður eins og ég hafi ekkert að bjóða. Ég vildi mennta mig, en ég get ekki hætt í vinnunni sem ég er í núna.

Í dag slepp ég með peninginn og ég veit að margir hafa það verra. Til dæmis hafa ekki allir tækifæri til að komast í vinnu sem hentar þeirra örorku. Það veldur mér miklum áhyggjum að heyra ráðamenn tala um starfsgetumat. Fólk þarf hjálp, ekki skerðingar eða hótunarbréf með vísanir í fullt af lögum sem þau skilja ekki. Fólk þarf að fá tækifæri til að gera eitthvað, þó það sé smátt, að fá að taka þátt í samfélaginu. En það má ekki gerast með því að láta fólk verða hrætt um bæturnar sínar. Það þarf að hugsa um manneskjuna, veita henni hjálp og viðurkenningu.

Ég hef ekki viljað fylgjast mikið með pólitíkinni undanfarið. Það er alltaf talað við fólkið þegar eru kosningar, en eftir kosningarnar gleymist allt, og þeir sem hafa peninga enda á að hafa völdin. Þegar gengur vel í samfélaginu á að vera hægt að hjálpa fólki, ekki bara leika sér að því að smíða einhverja turna. Það á að fjölga úrræðum sem gefa fólki leið úr erfiðleikum, ekki fækka þeim. Þegar gengur vel á að skapa hlýju og gera samfélagið gott.“

Kremena Polimenova Demireva er í framboði fyrir Sósíalistaflokkinn í Reykjavík #valdiðtilfólksins

Kjósið Sósíalistaflokkinn

Stefna

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram