Þórður: Það þarf algjöra stefnubreytingu í launastefnu Reykjavíkurborgar

Hin Reykjavík

19. Þórður Alli Aðalbjörnsson
Hin Reykjavík

„Ég hef verið á leigumarkaði í Reykjavík meira og minna öll mín fullorðinsár og ástandið er svakalegt. Svívirðilega há leiga, ekkert öryggi og hægt að henda fólki út nánast hvenær sem er. Hef oftast verið láglaunamaður og á tímabili þurfti ég að leiga herbergi, smákompu með sameiginlegu baði í iðnaðarhúsnæði. Þetta er ekki mönnum bjóðandi. Ég vil þó taka fram að ég sjálfur hef verið frekar heppinn með leigusala.

Ég skil ekki af hverju við fáum ekki öll að lifa við öryggi og góðar aðstæður í Reykjavík og annars staðar á landinu. Við eigum bara þetta eina líf og það er nóg til handa öllum. Við erum rík af auðlindum og aðstæður okkur hagstæðar. Það er fáránlegt og sorglegt að sumt fólk þurfi að ströggla alla ævi í þessu landi allsnægta. Af hverju er það eðlilegt að fáir útvaldir hirði allan arðinn. Ég skil þetta ekki, hef aldrei skilið þetta og ætla ekki að skilja það. Og ég vil leggja mitt af mörkum til að breyta þessu.

Aðstæður mínar urðu verri eftir hrunið 2008. Ég var aldrei boðinn í partýið hjá auðmönnunum fyrir hrun en lenti svo í því að taka til eftir partýið hjá þeim, eins og svo margir aðrir. Ég hafði miklu minni peninga milli handanna og átti varla fyrir mat. Ég var auðvitað mjög reiður. Í mörg ár gat ég ekki tekið neitt sumarfrí og þurfti að velta fyrir mér hverri krónu. Svo er reyndar enn. Launin eru það lág að maður á bara rétt til að lifa af. Stundum er buddan tóm í síðustu viku mánaðar og ekki til peningar fyrir nauðsynjum.

Við búum við svo mikið óréttlæti. Það er skömm að því hvað margir hafa lág laun og geta ekki lifað mannsæmandi lífi. Þetta eru engin lífsgæði. Reykjavík er láglaunaborg. Það nær engri átt. Ég hef þó ekki alltaf búið í Reykjavík. Ég er fæddur og uppalinn í Hafnarfirði. Foreldrar mínir skildu þegar ég var ungur. Mamma stóð uppi ein með okkur 4 systkinin. Samt fann ég aldrei fyrir því að ég væri fátækur. Við áttum fyrir mat og okkur skorti í raun ekkert þó lítið væri til. Fjölskyldan stóð líka vel saman. En núna, sem láglaunamaður, er ég ekki öruggur um að eiga fyrir nauðþurftum í lok mánaðar. Þó er ég frekar sparsamur. Þetta stenst engan skoðun og ég vil taka þátt í að breyta ástandinu í Reykjavík.

Það þarf að gera stórátak í húsnæðismálum í Reykjavík og tryggja að allir hafi öruggt þak yfir höfuðið, sama hvort fólk leigir eða kaupir. Það er vel hægt ef vilji er fyrir hendi. Öruggt húsnæði er jú ein grunnforsenda velferðar. Það þarf að endurvekja verkamannabústaðakerfið og búa til húsnæðiskerfi sem er óhagnaðardrifið. Og það þarf að setja þak á leiguverð og stuðla að traustum leigumarkaði með öruggum langtímaleigusamningum. Svo á Reykjavíkurborg að sjálfsögðu að tryggja nægilegt framboð félagslegra íbúða.

Algjör stefnubreyting þarf að verða í launastefnu Reykjavíkurborgar. Það þarf að breyta um forgangsröðun, þannig að fólk fái mannsæmandi laun. Það þarf að útrýma fátækt og tryggja að börnin okkar hafi jöfn tækifæri. Fyrir þessu vil ég berjast. Við erum öll jafn mikilvæg.“

Þórður Alli Aðalbjörnsson er í framboði fyrir sósíalista í Reykjavík í vor#valdiðtilfólksins

Kjósið Sósíalistaflokkinn

Stefna

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram