Auðlindamál
Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...
Að auðlindir í náttúru Íslands séu sameiginleg og ævarandi sameign þjóðarinnar og vernd náttúrunnar verði ávallt höfð í fyrirrúmi.
01Að auðlindir í þjóðareign séu meðal annars öll náttúrugæði landsins, vistkerfi og nytjastofnar, vatn, jarðhiti, rafmagn, sjór, sjávarnytjar og andrúmsloft við land- og lofthelgi landsins.
02Að leyfi til auðlindanýtingar eða nýtingar á öðrum almannagæðum sé aðeins veitt að undangengnu ströngu umhverfismati og að almannahagur og sjálfbærni sé ávallt höfð að leiðarljósi.
03Að jafnræðissjónarmið séu ætíð virt við framkvæmd leyfisveitinga á nýtingarrétti á auðlindum í gagnsæju ferli.
04Að óháð eftirlit með nýtingarrétti auðlinda sé bundið í lög og að þeir aðilar sem hafa nýtingarrétt hvort sem það eru stjórnvöld eða einstaklingar, beri ávallt ábyrgð á verndun auðlindanna og viðhaldi lífríkja þeim tengdum.
05Að allt eftirlit með auðlindanýtingu sé stóraukið og að upplýsingar um það liggi ávallt fyrir.
06Að rannsóknir og mælingar á gæðum auðlinda, lands og sjávar, séu stórauknar og vel fjármagnaðar.
07Að leyfi til auðlindanýtingar leiði aldrei til eignarréttar af nokkru tagi né annarskonar óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.
08Að fiskveiðistjórnunarkerfið í núverandi mynd sé afnumið og undið ofan af þeim ójöfnuði og spillingu sem það hefur valdið. Allur kvóti verði innkallaður og nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi sett á laggirnar.
09Að leyfi til fiskveiða og nýtingar sjávarnytja innan íslenskrar lögsögu séu veitt tímabundið, til hóflegs tíma í senn, gegn gjaldi svo þjóðinni sé tryggt sanngjarnt verð fyrir auðlindina.
10Að auðlindanýting fiskveiða og annarra sjávarnytja sé háð leyfum sem skulu vera skilyrt staðbundið til að viðhalda byggð um landið og þau ekki framseljanleg.
11Að landbúnaðarkerfið sé endurskoðað í fullri samvinnu við bændur og búaliðs og með tilliti til sjálfbærni lands og matvælaöryggis.
12Að nýting jarðnæðis, bújarða og landbúnaðar sé háð skilyrðum og til tiltekins tíma í senn og að enginn einstaklingur eða fyrirtæki geti safnað upp jörðum.
13Að andrúmsloftið sem meginundirstaða lífs á jörðinni sé verndað sem frekast er unnt og að iðnaður á Íslandi fylgi ávallt ítrustu kröfum er varðar útblástur, svifryk og loftgæði.
14Að orkuframleiðsla landsins verði ekki aukin að óþörfu umfram orkuþörf almennings, með tilheyrandi náttúruspjöllum og jarðraski.
15Að einkavæðing í orkuframleiðslu landsins verði lögð af með öllu. Gripið sé til ráðstafana svo að sú orkuframleiðsla sem nú er í einkaeigu sé færð í eigu þjóðarinnar.
16Að yfirvöld tryggi að orkuveita um landið allt sé í lagi og skilgreini raforku sem grunnþörf til búsetu á Íslandi.
17Að ferðaþjónustan beri ábyrgð á þeim auðlindum sem hún nýtir og stuðli að sjálfbærni og góðri umgjörð á útsýnis- og útivistarsvæðum, með sérstöku auðlindagjaldi.
18Auðlindir annara ríkja skal umgangast af virðingu og skal það varða ströngum viðurlögum að spilla eða misnota þær.
19Ítarefni:
Vistkerfi náttúrunnar eru undirstaða alls lífs á jörðinni og skal nýting þeirra ávallt taka mið af sjálfbærni. Þannig skal náttúran og vistkerfi hennar ávallt eiga sér sjálfstæða tilvist og hafa gildi í sjálfu sér burt séð frá verðmætamati og nýtingarhugmyndum manna. Sósíalistaflokkur Íslands vill því að auðlindir landsins séu ávallt í þjóðareign og nýttar af virðingu gegn sanngjörnu gjald en ekki gefnar góðvinum ráðamanna eða þær framseldar til gróðabrasks.
Til auðlinda á Íslandi má telja öll náttúrugæði landsins og vistkerfi svo sem sjó, nytjastofna í sjó, vötnum og ám auk hafsbotn, uppsprettur, vatnsföll, jarðhita, námur, land, landdýr, námasvæði, sanda jökla, fjöll og gróðurlendi sem og andrúmsloft og vinda. Óspillt náttúra, víðerni með sínum fjöllum og jöklum og vatn bæði heitt og kalt eins og finna má á Íslandi er að verða dýrmætasta auðlind þjóða og skal vernda skilyrðislaust. Öll löggjöf yfirvalda á Íslandi þessu tengd skal miða að verndun og sjálfbærni náttúruauðlinda.
Hugtakið sjálfbærni vísar til þess að ekki megi ganga óhóflega á forða náttúrunnar heldur verði að nýta auðlindir hennar á þann hátt að þær nái að endurnýja sig. Einnig að nýting náttúruauðlinda feli ekki í sér mengun lofts, lands eða hafs eða leiði af sér önnur umhverfisspjöll. Sjálfbær þróun er því þróun sem fullnægir þörfum samtímans án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til lífs.
Reglur um leyfi til nýtingar auðlinda skulu bundin í lög og ekki veitt nema að undangenginni ítarlegri rannsóknarvinnu og ströngu umhverfismati hvort heldur á við um fiskveiðar, auðlindir í sjó, á landi, í lofti eða vatn og jarðhita. Slík leyfi skulu aðeins veitt til hóflegs tíma í senn og með ítarlegum skilyrðum svo sem að sjálfbærni sé virt til fulls og að einnig sé sett þak á magn svo sem afla í sjó eða stærð jarðnæðis. Eðlilegt gjald skal tekið fyrir veitt leyfi svo þjóðin njóti góðs af nýtingunni en ekki einstaklingar og eða fyrirtæki eingöngu. Þá skal nýting auðlinda aldrei leiða til eignarréttar af nokkru tagi né annarskonar óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.
Leggja skal niður kvótakerfið í núverandi mynd enda hefur það kerfi leitt til misskiptingar og spillingar innan lands og utan. Sjávarnytjum eða fiskveiðiheimildum, skal úthluta á ný með það í huga að fiskveiðar hafa í aldanna rás verið tilvistargrundvöllur byggða í kringum landið. Úthlutun þeirra skal því miðast við viðhald byggða um allt land og vinna í samvinnu við sveitarfélög og önnur byggðarlög landsins. Þar skal taka mið af jafnræði og gagnsæi auk þess sem rannsóknir á sjávarnytjum hvers svæðis þurfa að styðja við framkvæmdir. Nýti handhafi aflaheimilda ekki hlut sinn er honum óheimilt að framselja hann.
Afnema skal alla einkavæðingu á jarðhita og vatnsaflsvirkjunum landsins og skulu hagsmunir náttúrunnar alltaf vera í fyrirrúmi þegar kemur að nýtingu orkunnar. Yfirvöld skulu meta reglulega orkuþörf landsins og sjá til þess að umfram orkuframleiðsla sem ekki lýtur almannahagsmunum sé stöðvuð. Þá geti yfirvöld selt fyrirtækjum í matvælaframleiðslu svo sem gróðurhúsabændum orkuna með afslætti en ekki alþjóðafyrirtækjum í stóriðju sem hingað leita með tilheyrandi mengun og jarðraski. Þannig skal huga að sjálfbærni samfélagsins sem og sjálfbærni á heimsvísu. Nýting uppsprettuvatns, vatnsfalla og jarðhita skal almennt vera til almannanota og skulu virkjanir og vatnsveitur vera í almannaeigu og reknar án hagnaðarsjónarmiða.
Endurskoða þarf landbúnaðarkerfið enda ofbeit og offramleiðsla á kjöti og öðrum dýraafurðum. Þá er viðhaldi og sjálfbærni lands ekki alltaf sinnt sem skyldi. Skoða skal landbúnaðarkerfið í fullri samvinnu við bændur og búalið og nýta það mikla hugvit sem býr meðal þeirra. Þannig má fjölga tækifærum við matvælaframleiðslu og auka hana með fyrrgreindum markmiðum. Matvælaöryggi landsins hvílir á fjölbreyttri og skipulegri landnýtingu og kerfisbreytinga er þörf sem tryggir bændum atvinnu- og afkomuöryggi samhliða því að gera þeim kleift að framleiða fleiri tegundir matvæla með nýjum og lífrænni aðferðum en nú er hefð fyrir. Þannig mætti nýta styrki til bænda mun betur og gefa þeim færi á að bæta landnýtingu og framleiða hagkvæmari, hollari og vistvænni matvæli. Slíkt myndi gefa bændum möguleika á eigin frumkvæði í þeim efnum, án þess að þurfa að setja sig og bújarðir sínar í fjárhagslega hættu.
Nytjastofnar í ám og vötnum og nýting á þeim skulu teljast utan við hefðbundinn landbúnað. Nýting laxa- og silungsstofna skal byggja á sjálfbærni, jafnræði og gagnsæi.
Endurheimt vistkerfa landsins skal vera forgangsmál þegar kemur að landnotkun. Þá sé einnig hugað að almennri náttúruvernd með því að endurheimta votlendi og vernda þjóðlendur og víðerni landsins eins og frekast er kostur. Rask á landi með námavinnslu og vegagerð skal einnig lúta almannahagsmunum og umhverfismati.
Þá skal ferðaþjónustan bera ábyrgð á og spyrna gegn ágangi á útsýnis- og útivistarsvæði, með auðlinda- og eða gistigjaldi. Þannig má byggja upp góða umgjörð svo hægt sé að viðhalda sjálfbærni þegar kemur að vinsælum ferðamannastöðum á landinu. Þessi gjöld skulu einnig vera tengd þeim stöðum á landsbyggðinni þar sem mestur gestagangur er svo hægt sé að bæta vegagerð og löggæslu samhliða viðhaldi og sjálfbærni lands. Þá sé einnig gætt að því að ekki sé vegið að almannarétti.
Auðlindir annara ríkja skal einnig umgangast af virðingu og skal það varða ströngum viðurlögum að spilla eða misnota þær. Þannig skulu alþjóðasáttmálar að fullu virtir þegar kemur að verndun landa og landsvæða og endurheimt landa að auðlindum sínum.