Byggðamál
Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...
Að íslensk náttúra gangi óspillt til næstu kynslóða og þjóðgörðum verði stjórnað í almannaþágu en ekki í þágu atvinnugreina eða einstakra fyrirtækja.
01Að öllum byggðarlögum sé gert jafn hátt undir höfði með félagslegum stjórnunarháttum og réttlátri valddreifingu.
02Að allri opinberri þjónustu fylgi eðlilegt fjármagn um landið allt og að allir íbúar landsins búi við sem líkust skilyrði og geti sótt sér alla nauðsynlega opinbera þjónustu í heimabyggð.
03Að félagsleg réttindi þ.m.t. til framfærslu, húsnæðisbóta og annarrar þjónustu verði samræmd um allt land.
04Að tekið verði upp þriðja stjórnsýslustigið með stækkun sveitarfélaga í landshlutastjórnvaldseiningar.
05Að hver landsfjórðungur búi yfir kjarna innviðum svo sem vel búnum og mönnuðum sjúkrastofnunum og heilsugæslu, sem sinni íbúum án komugjalda eða annars kostnaðar, og tækjum svo sem sjúkraþyrlu, snjóplógum o.fl.
06Að öryggismál á landsbyggðinni séu tryggð með nauðsynlegum orkuverum, fjarskiptabúnaði, snjóflóðavörnum og annarri nauðsynlegri þjónustu og að rafmagn og varaaflsstöðvar séu til staðar í öllum byggðum.
07Að vegakerfi landsbyggðarinnar verði bætt án veggjalda og að almenningssamgöngur verði á samfélagslegum forsendum, niðurgreiddar og stórbættar út frá hverjum landshluta fyrir sig.
08Að fiskveiðistjórnunarkerfið verði stokkað upp svo að þau byggðarlög sem þurfa að treysta á gjöful fiskimið geti dafnað og byggðir landsins njóti góðs af auðlindum sínum.
09Að sjálfbærni landsins verði aukin með því t.d. að fullvinna afurðir svo sem fisk og önnur matvæli innanlands og í heimabyggð.
10Að nýsköpun verði aukin til muna á öllu landinu í öllum greinum svo komið sé til móts við tækniframfarir og sveiflur í stökum greinum.
11Að listir og menning verði efld á landsbyggðinni með nýju skapandi starfi og hlúð verði að eldri menningararfi.
12Að innan hvers landshluta eða fjórðungs verði hægt að reka tækniskóla og háskóla auk annarra sérskóla á framhalds- og háskólastigi og að endurmenntun verði kostur allsstaðar.
13Að opinberar stofnanir og stórfyrirtæki taki í auknum mæli upp fjarvinnu eða störf án staðsetningar.
14Að auka skuli eftirlit með ferðaþjónustu og vernda náttúruperlur og víðerni eins og kostur er og sjá til þess að ferðaþjónustu fylgi það fjármagn sem þarf í innviði og viðhald.
15Að óspillt víðerni, hálendið og fleiri svæði verði skilgreind sem þjóðgarðar og varið fyrir ágangi manna og dýra.
16Að nýting bújarða verði eins og segir í auðlindastefnu Sósíalistaflokksins háð skilyrðum svo sem búsetuskilyrðum og til tiltekins tíma í senn svo að enginn einstaklingur eða fyrirtæki geti safnað upp jörðum.
17Ítarefni
Sósíalistaflokkur Íslands vill vernda byggðina um landið, varðveita náttúruna og tryggja að landið gangi óspillt til næstu kynslóða. Þjóðgörðum þarf að stjórna í almannaþágu en ekki í þágu atvinnugreina eða einstakra fyrirtækja og alla stjórnsýslu skal nálgast á samfélagslegan máta. Takmarkanir skulu settar á eignarhald jarða enda landið ekki venjuleg markaðsvara heldur grundvöllur þjóðríkisins. Þá skal fiskveiðikvóti endurheimtur þar sem við á og byggðum sem áður blómstruðu en hafa orðið fyrir tjóni vegna kvótaframsals braskara verði bætt það upp. Þannig skal tengja fiskveiðistjórnunarkerfið byggðunum um landið eins og við á og í samræmi við stefnu Sósíalistaflokksins í auðlindamálum.
Með því að taka upp þriðja stjórnsýslustigið með stækkun sveitarfélaga í landshlutastjórnvaldseiningar verði hægt að auka valddreifingu og halda stjórnkerfi og þjónustu í minni þéttbýliskjörnum og sveitum (staðbundin stjórnvöld). Þá sé lögð áhersla á mjög góðar samgöngur innan hvers sveitarfélags þannig að allir íbúar þess geti notið þjónustu innan þess án mikils kostnaðar og fyrirhafnar – og taki skipting landsins í sveitarfélög mið af samgöngum. Þá skal styrkja alla innviði svo hver landsfjórðungur verði sjálfbær og ekki þurfi að sækja mikilvæga þjónustu annað.
Sósíalistaflokkurinn stefnir að því að allir íbúar landsins búi við sem líkust skilyrði frá opinberri hálfu og geti sótt sér þjónustu í heimabyggð. Þannig verði opinber þjónusta veitt af sveitarfélögum og staðbundnum stjórnvöldum og þjónustu sem ríkið veitir verði einnig dreift um landið. Heilbrigðisþjónusta verði fyrir hendi í sveitarfélögum, en ekki sé byggt á farlæknum. Fjórðungssjúkrahúsin verði stórstyrkt og tryggja skal öryggi íbúa landsbyggðarinnar með uppbyggingu þeirra innviða sem þarf svo sem með betri heilbrigðisþjónustu svo að hver fjórðungur sé til þess bær að sinna lækningum, endurhæfingu og almennri heilsu íbúanna með sjúkrahúsum og heilsugæslum og hjúkrunarrýmum íbúum að kostnaðarlausu eins og segir í stefnu Sósíalistaflokksins um heilbrigðismál. Þá þarf að tryggja raforku, bæði tveggja og þriggja fasa, varaaflsstöðvar og fjarskipti auk þess að viðhalda snjóflóðavarnargörðum. Þá þurfa að liggja fyrir skýrar og þekktar viðbragðsáætlanir með rýmingaráætlunum þar sem hætta er á eldgosum eða öðrum náttúruhamförum.
Til að varðveita byggðina í kringum landið og sér í lagi brothættar byggðir skal auka við alla nýsköpun. Þá er átt við aukna nýsköpun af öllu tagi, bæði sem kemur sér vel fyrir grunnatvinnuvegina; ferðaþjónustu, landbúnað, orkufrekan iðnað og sjávarútveg, nýsköpun í annarri tækni, en síðast en ekki síst í listum og menningu. Þær greinar hafa bein áhrif á fýsileika búsetu og möguleika í ferðaþjónustu. Í þessu skyni verði tækifæri til endurmenntunar stóraukin í héraði.
Þá renni hagnaðurinn af auðlindum ekki síst til þeirra samfélagslegu verkefna sem hér er lagt til að verði unnin á landsbyggðinni, þ.e. til nýsköpunar, endurmenntunar og enduruppbyggingar atvinnutækifæra. Efla skal menningu og listir og kennslu á háskólastigi. Annars vegar verði hlúð að eldri menningararfi og hann gerður sýnilegur og einnig stuðlað að því að ný list og nýjar listgreinar og annað skapandi starf fái sprottið upp í frjóu umhverfi, m.a. í skólum og í nýsköpunar- og listasmiðjum.
Sósíalistaflokkurinn vill auk þess að sveitarfélögunum verði gert kleift að reka tækniskóla, háskóla og aðra sérskóla á framhalds- og háskólastigi og hafi sveitarfélög þannig tækifæri til að sérhæfa sig svo að ekki sé endilega það sama kennt alls staðar. Skilyrði er að heimavistir og stúdentaíbúðir verði reknar í tengslum við skólahald. Menntun og endurmenntun er lykillinn að nýsköpun og alþjóðleg og innlend reynsla sýnir að skólahald á landsbyggðinni leiðir til þess að nemendur setjast að í byggðarlaginu og skapa sér tækifæri þar. Auk þess er lagt til að allir framhaldsskólar og háskólar í landinu gefi kost á fjarnámi.
Opinberar stofnanir og fyrirtæki, ekki síst stórfyrirtæki taki í stórauknum mæli upp störf án staðsetningar. Þannig fái ungt fólk tækifæri til að ala börn sín upp við heilbrigðar aðstæður úti á landi í litlum samfélögum sem oft hafa mikinn félagsauð og samhjálp.
Sósíalistaflokkurinn vill aukna friðun íslenskrar náttúru og leggur áherslu á frumkvæði heimamanna í því efni. Landsbyggðin hefur yfir um 40% af ósnortnum víðernum Evrópu að ráða og nýta á þau með sjálfbærum hætti þannig að landið gangi óspillt til næstu kynslóða. Flokkurinn leggur áherslu á að óspillt víðerni, hálendið og fleiri svæði verði skilgreind sem þjóðgarðar og varið fyrir ágangi manna og dýra.
Þá skal ferðaþjónustan greiða fyrir nýtingu sameiginlegra innviða lands og þjóðar og séð verði til þess að þessi atvinnugrein spilli ekki ásýnd náttúru og víðerna. Í því skyni þarf að sinna sérstöku eftirliti með ferðaþjónustu og viðhalda eðlilegri uppbyggingu hennar, sjá til þess að ágangur ferðamanna spilli ekki náttúrunni svo sem innan þjóðgarða með utanvegaakstri o.fl. og að ferðaþjónustan taki þátt í eðlilegum kostnaði innviða.