Heilbrigðismál

Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...

Að á Íslandi verði gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta rekin af skattfé borgaranna.

01

Að unnið verði gegn allri markaðsvæðingu í heilbrigðisþjónustu og jafnvægi komið á þjónustuna miðað við þarfagreiningu.

02

Að unnið verði markvisst að eflingu heilsugæslunnar.

03

Að sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði samþykktur.

04

Að notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) verði notuð á markvissan hátt við þjónustu við fatlaða.

05

Að skýrsla Sameinuðu þjóðanna um geðheilbrigði (júní 2017) verði virt.

06

Að unnið verði samkvæmt langtímamarkmiðum í heilbrigðisþjónustu og fjármagn til heilbrigðismála og reksturs Landspítala Háskólasjúkrahúss verði í samræmi við kröfur um nútímavædda heilbrigðisþjónustu.

07

Að lyfjakostnaður verði að fullu niðurgreiddur og lyfjaverslun almennings sett á fót, með sterku gæðaeftirliti og bestu lyfjum sem völ er á.

08

Að forvarnir og lýðheilsa verði efld og stuðlað að því að ríkið veiti þá þjónustu.

09

Að komið verði á fót embætti umboðsmanns sjúklinga.

10

Að geðsvið Landsspítala Háskólasjúkrahúss, sem og Barna- og unglingageðdeild verði efld og geti sinnt eðlilegri neyðarþjónustu.

11

Að endurhæfing sé ávallt í boði fyrir langveika, sem vilja bæta heilsu sína og lífsskilyrði.

12

Að öldruðum sé tryggð þjónusta við hæfi hvort heldur með heimahjúkrun, plássi á hjúkrunarheimili eða sjúkrastofnun.

13

Að heilsugæsla og sjúkrahúsþjónusta á landsbyggðinni verði efld og þau sjúkrarými, tæki og búnaður sem þar er til staðar verði nýttur sem kostur er og að fjarlækningar verði efldar.

14

Að starfsumhverfi heilbrigðisstarfsmanna verði bætt og teymisvinna efld.

15

Að grundvöllur velferðar og heilbrigðis sé einnig tryggður með öðrum nauðsynlegum umhverfisþáttum svo sem réttlátu og góðu húsnæðiskerfi, menntakerfi, atvinnulífi og launastefnu sem og almannatryggingakerfi.

16

Ítarefni

Heilbrigðisþjónusta tekur til allra þátta heilbrigðis: líkamlegs, tilfinningalegs og geðræns. Þar með talið tannlækningar og tannéttingar, sálfræðiþjónusta, sjúkra-og iðjuþjálfun sem og þjónusta talmeinafræðinga, áfengis- og fíkniefnameðferðir auk ráðgjafar og stuðnings fyrir fólk sem orðið hefur fyrir ofbeldi og öðrum áföllum.

Heilsugæslan verði efld og að heilbrigðisstarfsfólk nálgist lækningar í heildrænu ljósi með tilliti til félags-og umhverfisþátta. Einnig skulu heilsugæslur bjóða uppá þjónustu fagfólks sem halda utan um réttindamál og aðstoða fólk við að sækja rétt sinn og vísa því veginn innan heilbrigðis- og almannatryggingakerfisins.

Samhliða því að Ísland setur sér langtímamarkmið, sem nær til lengri tíma en eins kjörtímabils, skal sinna þarfagreiningu, gæðamati og samkeppnishæfni við önnur lönd. Eftirlit skal vera í höndum óháðs aðila en ekki landlæknisembættisins.

Geðheilbrigðisþjónustu þarf að efla innan spítala og á heilsugæslu sem og neyðarúrræði fyrir börn og unglinga með geðrænan vanda. Rannsóknir sýna að því fyrr sem brugðist er við þroskaröskunum eða geðröskunum því meiri líkur eru á að koma megi í veg fyrir alvarlegri afleiðingar síðar. Skólar á öllum menntastigum skulu hafa aðgang að geðheilbrigðisstarfsfólki í gegnum heilsugæsluna.

Setja þarf hömlur á fjárveitingar ríkisins til einkarekinna aðila og kanna hvort Sjúkratryggingar Íslands verði aftur sameinaðar Tryggingastofnun ríkisins eða búið til nýtt kerfi af velvirkandi fyrirmynd. Stýra þarf fjárúthlutunum út frá þarfagreiningum og forgangsröðun hverju sinni og að gæðaeftirlit tryggi að komið verði í veg fyrir að fé renni úr ríkissjóði til einkageirans að ástæðulausu. Heilbrigðisþjónusta verði ekki rekin í arðsemisskyni og jafnvægi verði komið á innan þjónustunnar svo ekki skapist tækifæri til oflækninga né að stíflur myndist eða langir biðlistar.

Lyfjaverslun í almannaþágu mun hafa það að markmiði að kaupa lyf á sem hagstæðustu kjörum t.d. með lyfjainnkaupum í samvinnu við nágrannalöndin og bjóða upp á bestu lyf sem völ er á í samræmi við það sem gerist í löndunum í kringum okkur. Þá verði kostnaður vítamína og næringadrykkja einnig niðurgreiddur þar sem það á við.

Forvarnir og lýðheilsa verði ávallt í forgrunni og notast verði við stefnu sem skilgreinir ítarlega hlutverk hvers aðila sem að málum kemur hverju sinni. Þannig má koma í veg fyrir tvíverknað innan kerfisins.

Hægt verði að leita til Umboðsmanns sjúklinga með mál er varða öngstræti innan kerfisins eða þegar einstaklingur telur á sér brotið á einhvern hátt. Umboðsmaður sjúklinga muni hafa tilskipunarvald.

Efla skal endurhæfingu á vegum heilbrigðisþjónustunnar. Langveikir ættu ávallt að eiga greiðan aðgang að endurhæfingu til að koma í veg fyrir hnignun á heilsufari sínu óháð því hvort þeir stefni út á vinnumarkaðinn eða ekki.

Að endurhæfingastofnanir í einkarekstri eða reknar af frjálsum félögum lúti eðlilegri eftirlitsskyldu sem vel er sinnt.

Eldri borgarar skulu njóta efri áranna með reisn og fá þá þjónustu sem þeir þurfa án þess að vera hegnt fyrir það að fjölskyldumeðlimir sinni þeim. Í því ljósi þarf að fjölga opinberum hjúkrunar- og elliheimilum og efla heimaþjónustu.

Með bættu starfsumhverfi innan heilbrigðisþjónustunnar verður meðal annars komið í veg fyrir að hjúkrunarfólk hvort heldur er á sjúkrastofnunum eða við heimaþjónustu þurfi að taka óeðlilega margar vaktir til að halda mannsæmandi launum.

Öflugar  göngudeildir verði byggðar upp innan Landsspítala þar sem markmiðið er að ráða ekki lækna í hlutastörf heldur tryggja að starfskraftar þeirra og þekking nýtist sem best bæði hvað varðar kennslu innan Háskólasjúkrahússins sem og í þágu sjúklinga.

Fjárveitingar til heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni taki mið af þeim fjölda sem þarf að sinna þar með talið ferðamönnum og fólki í orlofshúsum. Sjúkraflutningar verði skoðaðir í samræmi við byggingu nýs Landspítala.

Stefna samþykkt 21.01.2018

Önnur stefnumál

Taktu þátt

Byltingin verður ekki án þín! Skráðu þig í flokkinn og taktu þátt í baráttunni.

Skráning

Deila share

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram