Húsnæðismál

Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...

Að húsnæðisöryggi sé tryggt á öllu landinu. Öruggt húsnæði er ein grunnforsenda velferðar.

01

Að tekin verði tafarlaust upp langtíma húsnæðisstefna til að mæta þeim gríðarlega skorti á húsnæði sem íslenskt samfélag stendur nú frammi fyrir.

02

Byggðar verði fjögur þúsund íbúðir á ári á næstu þremur árum og eftirleiðis nægilegt byggingarmagn á ári í kjölfarið í hlutfalli við íbúafjölda og þarfir á hverjum tíma.

03

Að byggðar verði 30 þúsund félagslegar íbúðir á næstu tíu árum

04

Að húsnæðiskerfið verði afmarkaðsvætt og hætti að vera leikvöllur braskara.

05

Að lögum verði breytt svo hægt sé að stofna nýjan húsnæðissjóð almennings. Slíkur íbúðasjóður byggir og leigir  óhagnaðardrifið húsnæði til félagslega og samvinnufélagslega rekinna leigufélaga almennings svo sem leigufélaga sveitarfélaga, námsmannafélaga, félaga fatlaðs fólks, aldraðra, einstæðra foreldra eða hvers kyns almannasamtaka.

06

Að tryggt sé fjármagn í að félagslega rekin leigufélög verði að lágmarki 25% af húsnæðismarkaðnum eftir 20 ár.

07

Að réttindi leigjenda skuli tryggð og stuðlað sé að traustum leigumarkaði með langtímaleigusamningum, reglum um þak á leiguverði og viðhaldsskyldu. Leiga verði góður kostur en ekki kvöð.

08

Að vísitölubreyting á húsaleigu sé aðeins gerð einu sinni á ári og tryggt sé að fólk greiði ekki meira en fjórðung ráðstöfunartekna sinna í húsaleigu.

09

Að settar verði ríkari hömlur á skammtímaleigu til ferðamanna (Airbnb) svo leigumarkaðurinn verði ekki markaðsöflum að bráð í tengslum við ferðamannastrauminn og þar með ófyrirsjáanlegur.

10

Að heimilisleysi verði útrýmt og ólöglegt verði fyrir hið opinbrera að vísa nauðstöddu fólki á götuna, hvenær sólarhrings sem er. Gistiskýli verði þar með ekki rekin sem nætur-úrræði eingöngu.

11

Að námsmönnum í háskóla- eða framhaldsskólanámi svo sem iðn- og eða sérskólanámi og námsmönnum af landsbyggðinni verði tryggt húsnæði á nemendagörðum í gegnum félagslega rekin og óhagnaðardrifin húsnæðisfélög.

12

Að fötluðu fólki og öldruðum verði tryggt húsnæði í gegnum félagslega rekin og óhagnaðardrifin húsnæðisfélög.

13

Að lög um samvinnufélög verði endurskoðuð með það að markmiði að hægt sé að stofna leigufélög og annarskonar samvinnufélög á gerlegan máta.

14

Að tryggt sé að eitt löggjafarþing geti ekki afnumið félagslega eða samvinnufélagslega rekin húsnæðiskerfi og sjóði.

15

Ítarefni: 

Húsnæði fólks á ekki að vera leikvöllur braskara. Eðlilegt er að stór hluti uppbyggingar húsnæðis sé óhagnaðardrifinn. Biðlistar eftir húsnæði hjá hinu opinbera eða félagasamtökum eru óásættanlegir. Lágtekjufólk á leigumarkaði er núna flest klemmt á milli lágra tekna og okurleigu.

Til að vernda þetta fólk þarf uppbyggingu félagslegs húsnæðis sem hefur áhrif á leigumarkaðinn og getur lækkað leiguverð varanlega. Einnig þarf að hækka húsnæðisstuðning svo að enginn greiði meira en fjórðung tekna sinna í húsnæðiskostnað.

Húsnæðisöryggi er ein af grunnforsendum velferðar í landinu og aðgangur að húsnæði eru sjálfsögð mannréttindi. (“25.grein mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir: 1. Allir eiga rétt á lífskjörum sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan þeirra sjálfra og fjölskyldu þeirra. Telst þar til fæði, klæði, húsnæði, læknishjálp og nauðsynleg…)

Langtímaáætlun í húsnæðismálum er afar nauðsynleg svo ekki safnist upp gríðarlegur húsnæðisskortur eins og raungerst hefur í dag. Við skipulagningu á nýjum byggðum og endurskipulagningu á eldri hverfum skal gera ráð fyrir því að hæfilegt hlutfall af lóðum sé úthlutað undir samvinnubyggingarfélög og félagslegt húsnæði. Þannig verði búsetufrelsi einstaklinga og fjölskyldna tryggt óháð efnahag. Með búsetufrelsi er átt við að fólk geti valið sér staðsetningu og gerð húsnæðis með tilliti til aðstæðna hverju sinni.

Ódýrt og öruggt húsnæði er forsenda allrar velferðar- og heilbrigðisþjónustu. Grunnforsenda þess að hér verði byggt upp öflugt velferðarkerfi, sem er forsenda þess að fátækt verði upprætt, er stórátak í uppbyggingu félagslegs húsnæðis.

Sósíalistaflokkurinn leggur til húsnæðisumbyltingu þar sem 30 þúsund félagslegar íbúðir verði byggðar um allt land á næstu tíu árum en að auki verði byggt ríflega næstu þrjú árin til að mæta uppsafnaðri þörf.

Ríki, sveitarfélög og lífeyrissjóðir þurfa að starfa saman að þessari uppbyggingu sem lagt er til að verði gert með eftirfarandi hætti: Húsnæðissjóður almennings verður stofnaður sem mun afla 70% nauðsynlegs fjármagns með útgáfu skuldabréfa sem seld verða lífeyrissjóðum og öðrum fjárfestum. Tryggingar skuldabréfanna eru öruggar, því íbúðarhúsnæðið verður í öruggri langtímaleigu, og munu skuldabréfin því bera sambærilega vexti og ríkisskuldabréf. Um 13% kostnaðarins munu sveitarfélög og ríki leggja til í formi lóða og 17% kemur sem lán frá ríkissjóði á lægstu vöxtum, lán sem greiðist til baka á endingartíma íbúðanna. Fjármagnskostnaður verður því eins lítill og mögulegt er í dag.

Húsnæðissjóður almennings mun síðan leigja húsnæði til Leigufélaga almennings, sem geta verið ýmiss konar: Leigufélög sveitarfélaga, námsmannafélaga, félaga öryrkja, aldraðra, einstæðra foreldra eða hvers kyns almannasamtaka með sameiginlega hagsmuni. Mögulegt verður jafnframt fyrir einstaklinga og/eða hópa, að velja sér búsetu í smáhýsabyggð eða húsum á hjólum. Ennfremur verður búið svo um að byggingasamvinnufélög og leigufélög rekin af íbúunum sjálfum, fái blómstrað. Þá verði skilyrði til leigu á félagslegu húsnæði rýmkuð og jaðarsetningu þar með útrýmt.

Bygginga- og borgarskipulag þarf að bæta til að koma í veg fyrir byggðir á hættusvæðum svo sem eldfjalla- eða snjóflóðahættusvæðum. Gera skal ráð fyrir góðri innviðauppbyggingu í nýjum hverfum allra sveitarfélaga svo ekki komi til heitavatnsskortur, rafmagnsleysi eða aðrar hindranir.

Einnig þarf að koma í veg fyrir að matvælaframleiðsla lokist inni á afmörkuðum landssvæðum vegna skemmda á innviðum við náttúruhamfarir. Nægilegt rekstrarfé verði sett í viðhald opinberra bygginga til að fyrirbyggja raka- og mygluvandamál.

Leigjendur eiga ekki að lifa í óvissu um leiguverð vegna vaxtabreytinga árið um kring heldur verði vaxtastigið ákvarðað einu sinni á ári út frá meðaltali, líkt og tíðkast víðast hvar í Evrópu og N-Ameríku. Mikilvægt er að leigjendur séu tryggðir gegn ofur leiguverði og að hagstæðara verði að leigja en kaupa og því eðlilegt að halda afborgunum húsaleigu undir lánaafborgunarverði.

Hér á landi hefur þessu verið öfugt farið en á sama tíma hefur fólk ekki fengið greiðslumat til íbúðarkaupa hjá bönkum þar sem tillit er tekið til þess hversu háa húsaleigu það hefur greitt, einungis horft á hversu mikið ráðstöfunaré það hefur á milli handanna.

Auk þess að fjölga verulega félagslega reknu húsnæði, verður að setja þak á leiguverð, tryggja réttarstöðu þeirra og að þeir hafi í sig og á.

Styrkja þarf stöðu leigjenda með eflingu leigjendasamtakanna en einnig má beita skattalegum úrræðum, til dæmis með því að auka skattlagningu á húsnæði án fastrar búsetu, hækka fjármagnstekjuskatt og fleira til að bæta stöðu þessa hóps.

Tryggja skal aðgengi alls almennings að húsnæði og sjá til þess að neyðarhúsnæði sé til staðar í öllum sveitarfélögum til að mæta bráðavanda. Fólk sé ekki vistað í neyðarskýlum þar sem það er úti í kuldann á daginn heldur verði mannsæmandi neyðarúrræði í boði hvort sem um er að ræða fjölskyldu á vergangi, flóttafólk eða fólk sem glímir við fjölþættan vanda.

Til að mæta núverandi húsnæðisvanda er einnig lagt til að mótaðar verði lausnir sem nú þegar eru til í nágrannalöndunum. Hafist verði strax handa við þróun nýs húsnæðissjóðs almennings og lagabreytingar honum tengdum og gert ráð fyrir að innleiðing á nýju kerfi taki ekki lengri tíma en þrjá mánuði.

Stefna samþykkt 15.06.2024

Önnur stefnumál

Taktu þátt

Byltingin verður ekki án þín! Skráðu þig í flokkinn og taktu þátt í baráttunni.

Skráning

Deila share

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram