Menningarmál og listir

Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...

Að allir geti notið menningar og lista óháð efnahag, stétt eða stöðu.

01

Að veitt sé fjármagn til sem fjölbreyttastra menningarkima svo sem allra listgreina, safna og listhúsa,þjóðmenningar,fræðastarfa,fjölmiðlunar og bókasafna, sundlauga og annara félagsrýma.

02

Að menning allra samfélagshópa sé í hávegum höfð og henni ásamt ólíkum listgreinum gert jafn hátt undir höfði.

03

Að efla menningu og listir jaðarhópa svo sem með útgáfu miðla, farandsýningum, tónleikum eða listsmiðjum þeim til hagsbóta og heilsueflingar.

04

Að tryggja rekstur bókasafna og menningarmiðstöðva um allt land ásamt virknimiðstöðva með félagseldhúsum sem eru aðgengilegar öllum og skilgreina hlutverk þeirra og samfélagslegt mikilvægi.

05

Að gera úttekt á rekstri og stefnu Hörpu tónleikahúss og efla menningu og líf í öllu húsinu.

06

Að þjóðarópera verði stofnuð og henni fundinn staður í lögum um sviðslistir með sama hætti og Þjóðleikhúsið.

07

Að danshúsi verði komið á fót í samstarfi ríkis og sveitarfélaga með þátttöku fagfélaga dansara og danshöfunda.

08

Að íslensk kvikmyndagerð sé stórefld með sterkara sjóðakerfi sem styður við fjölbreyttari kvikmyndaverk auk þess að búa í haginn fyrir þróun íslenskrar streymisveitu.

09

Að sjálfstæði fjölmiðla verði tryggt og útgáfa þeirra fjölmiðla efld sem byggja á heilbrigðri gagnrýni og leitast við að greina alla stéttavinkla samfélagsins.

10

Að fjölga sjálfstætt starfandi fræðimönnum og tryggja þeim afkomuöryggi.

11

Að lögfest verði höfundarréttarstefna í samræmi við gildandi hugverkastefnu

12

Að tryggja aðgengi allra að listnámi óháð efnahag með afnámi skólagjalda.

13

Að efla þátttöku innflytjenda í listnám og aðgengi að menningarlífi með sérstöku átaki.

14

Að erlendum listamönnum sé veittur aðgangur að menningarrýminu og að erlendir listamenn utan Evrópusambandsins fái landvistarleyfi til að vinna að list sinni

15

Að starfslaunasjóðir listamanna verði efldir til muna, launþegum fjölgað og tími starfslauna lengdur ásamt fjölgun verkefnastyrkja.

16

Að tryggja réttindi listamanna og kjör hjá stofnunum sem njóta opinberra styrkja.

17

Að menning og menningariðnaður hafi ávallt umhverfisvæn viðmið og unnið sé samkvæmt ítrustu kröfum í loftslagsmálum.

18

Að menningarmálaráðuneyti verði stofnað til að tryggja listum og menningu brautargengi innan stjórnsýslunnar sem og innan samfélagsins.

19

Ítarefni:
SóÍsíalistaflokkur Íslands vill stuðla að menningu sem leysir af hólmi þá neikvæðu menningu, einstaklingshyggju, græðgi og ofurneyslu sem fylgir nýfrjálshyggjunni.

Þessi óheillamenning hefur ríkt undanfarin 30 ár í öllum heimshornum og
hefur gegnsýrt samfélögin með sínum neikvæðu gildum og ógnar nú
lífsskilyrðum okkar og plánetunnar. Menningin hvort heldur alþýðumenning eða listir ætti að taka tillit til manneskjunnar og náttúrunnar og vera í þágu allra, en ekki aðeins hinna fáu og valdamiklu, með sýn á framtíðina, ungu kynslóðirnar og með samhygð og mennsku að leiðarljósi.

Til þess að allir geti notið menningar og lista óháð efnahag, stétt eða stöðu er mikilvægt að fella niður almennan aðgangseyris að menninga- og listastofnunum í opinberum rekstri en einnig stuðla að öflugri undirstöðu lista- og menningarlífs með menntun í skapandi greinum. Stafræn menning skal einnig studd af ríkinu og gerð aðgengileg öllum skólum og menntastofnunum.

Efla skal allt menningarstarf á Íslandi og gera sérstakt átak í að efla sjálfstæði, sjálfsmynd, auka sýnileika og hvetja til þátttöku jaðarsetta hópa svo sem fanga og fólks á sjúkrastofnunum en einnig innflytjenda og fólks af öðrum þjóðarbrotum.

Mikilvægt er að framlög frá ríkinu taki mið af fjölbreytileika íslenskrar menningar á 21. öld og fjölmenningu sem hluta af íslensku samfélagi. Þannig skulu framlög ríkisins einnig vera tæki til jöfnuðar þegar kemur að sköpun og aðgengi að menningu allra sem búa á Íslandi. Fjárframlög ríkisins í hvaða formi sem er verði því einnig metin af þverfagaðilum á sviði lista og menningar en einnig á sviði félagsvísinda. Þá sé stuðlað að samvinnu menningarstofnana um allt land svo að fjármunir nýtist hinni faglegu starfsemi með besta móti.

Til að efla menningu jaðarhópa er mikilvægt að rödd þeirra heyrist, svo sem með útgáfu miðla eða götublaða, farandsýningum, tónleikum og fleiru þeim til hagsbóta en einnig verði hægt að nota listsmiðjur og aðra menningu sem heilbrigðisúrræði og forvarnir til dæmis fyrir fatlað fólk og aldraða.

Bókasöfn og menningarmiðstöðvar um allt land verði endurskilgreind frá grunni ásamt sundlaugum og öðru félagsrými og hverfamenning í borg og bæjum tendruð með virknimiðstöðvum aðgengilegar öllum og sem innihalda félagseldhús. Einnig skal endurskoða hlutverk trúarstofnana sem félagsrýmis með opinn faðm.

Skapandi greinar eru einnig  iðnaður sem ríkinu ber að rækta og styðja við líkt og annan iðnað í landinu.
Mikilvægt er að reka tónlistarhús, þjóðaróperu og danshúss ásamt stóru leikhúsunum en þá er einnig mikilvægt að húsin þjóni listinni og fólkinu en ekki öfugt.  Því skal gera úttekt á rekstri og stefnu Hörpu tónleikahúss og efla menningu og líf í öllu húsinu.

Íslensk kvikmyndagerð skal stórefld með sterkara sjóðakerfi sem styður við fjölbreyttari kvikmyndaverk auk þess að búa í haginn fyrir þróun íslenskrar streymisveitu.

Það er mikilvægt að endurskoða tilgang og rekstur fjölmiðla en rannsóknarblaðamennska njóti friðhelgi sem greinandi afl í samfélaginu.  Þá yrði stofnaður rannsóknarblaðamannasjóður til styrktar blaðamönnum sem þurfa rými og fé til þess að sinna rannsóknarvinnu til lengri tíma.
Einnig þarf að tryggja skoðanafrelsi hjá ríkisútvarpinu, og að öllum röddum af öllum stéttum sé  útvarpað. Þannig sé til dæmis aukin þáttur  innflytjenda og verkafólks  að efnistökum þáttagerðar ríkisútvarpsins og sýnd rétt mynd af íslensku samfélagi.
Þá sé sjálfstætt starfandi fræðimönnum tryggð afkoma, sér í lagi ef þeir víkka út sjónarsviðið með áherslu á hina raddlausu og fátæku.

Mikilvægt er að menntamálin ýti undir skapandi greinar og tryggi aðgengi allra að listnámi með afnámi skólagjalda og sér átaki varðandi jaðarhópa og þá er sýna sig að skili sér síður í listnám.

Þá vill Sósíalistaflokkurinn tryggja listafólki efnahagslegt öryggi til þess að starfa sjálfstætt að list sinni óháð væringum markaðarins og útilokunar klíkusamfélagsins.
Kjör listafólks skulu tryggð betur með því að fjölga starfslaunum og lengja þann tíma sem þau eru veitt ásamt fjölgun vekefnastyrkja en einnig að tryggja réttindi og kjör þeirra listamanna sem starfa við stofnanir sem njóta opinberra styrkja.  Þá eru starfslaunasjóðir sviðslistafólks aðkallandi þegar oft er hlé á milli verkefna og mörg þeirra sjálfstætt starfandi allan sinn feril.  Mikilvægt er einnig að erlendum listamönnum sé veittur aðgangur að menningarrýminu og að listamenn utan Evrópusambandsins fái landvistarleyfi til að vinna að list sinni

Menning og menningariðnaður mun og þarf ávallt að hafa í huga kyn, uppruna og stétt við stefnumótun og útfærslu á efni sínu og gera öllum jafnt undir höfði.  Stefna skal að því að gera menningartengd störf fjölskylduvæn en einnig að menningariðnaður hafi ávallt umhverfisvæn viðmið og unnið sé samkvæmt ítrustu kröfum í loftslagsmálum.
Þá skal menningarmálaráðuneyti stofnað til að tryggja listum og menningu brautargengi innan stjórnsýslunnar sem og innan samfélagsins alls.

Stefna samþykkt 10.10.2024

Önnur stefnumál

Taktu þátt

Byltingin verður ekki án þín! Skráðu þig í flokkinn og taktu þátt í baráttunni.

Skráning

Deila share

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram