Menntamál
Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...
Að menntun barna og ungmenna sé með öllu gjaldfrjáls sem og háskóla- og framhaldsnám á vegum hins opinbera.
01Að skólamáltíðir á grunn- og framhaldsskólastigi séu gjaldfrjálsar.
02Að komið sé í veg fyrir stéttskiptingu milli skóla og innan þeirra með aðgerðum til jöfnuðar.
03Að skólinn stuðli að vellíðan nemenda og starfsfólks með því að draga úr samkeppni innan skólaumhverfisins og tryggja smærri hópa í námi.
04Að allir skólar bjóði upp á þann stuðning sem nemendur þurfa á að halda óháð biðlistum og greiningum.
05Að börnum og ungmennum séu tryggðar gjaldfrjálsar tómstundir og að þær séu færðar inní skólahúsnæðið eins og kostur er og metnar til náms.
06Að innflytjendum á öllum aldri sé tryggð íslenskukennsla og innflytjendabörnum einnig móðurmálskennsla.
07Að börnum á flótta sé tryggð menntun til jafns við önnur börn.
08Að lýðræðisvitund nemenda og starfsfólks á öllum skólastigum sé virkjuð.
09Að störf kennara séu metin að verðleikum og gerð eftirsóknarverð.
10Að öll tengsl menntunar og vinnumarkaðar séu í samstarfi við verkalýðsfélög.
11Að auka verk-, tækni- og listnám á öllum skólastigum.
12Að tekið verði upp námsstyrkjakerfi.
13Að tryggja virkt rannsókna-, vísinda- og fræðaumhverfi á Íslandi.
14Ítarefni
Skólakerfið skal rekið af hinu opinbera og nægt fjármagn tryggt til allra menntastofnana í opinberum rekstri. Allar fjárveitingar miðist við raunverulegar þarfir út frá faglegri þarfagreiningu. Gjaldfrjáls grunnskóli felur m.a. í sér námsgögn, næringarríkan mat, frístundaheimili ásamt ferðalögum og skemmtunum, foreldrum skólabarna að kostnaðarlausu. Þá skal skólinn opna aðstöðu sína og húsnæði fyrir borgarana án endurgjalds. Framhaldsskólinn skal einnig vera gjaldfrjáls og bjóða nemendum uppá einfaldan morgun- og hádegismat nemendum að kostnaðarlausu. Háskólar í opinberum rekstri skulu einnig vera reknir nemendum að kostnaðarlausu og skulu aðrir háskólar eða sérskólar gæta hófs við innheimtu gjalda.
Skólinn skal vera stéttlaus og tryggja verður að þeir efnaminni hafi sömu tækifæri og aðrir á öllum skólastigum. Þá sé spornað gegn allri aðgreiningu sem leitt geti til jaðarsetningar svo sem aðgreiningu fátækra og ríkra, fólks af ólíkum uppruna, á grundvelli fötlunar, aldurs eða kyngervis. Þá er mikilvægt að minnka aðstöðumun þeirra sem búa á landsbyggðinni til að stunda t.d. iðn- og verknám sem eingöngu er kennt á höfuðborgarsvæðinu með framboði á heimavist eða námsíbúðum. Þá skal einnig tryggja fullorðnu fólki sem ekki hefur klárað framhaldsskólanám á tilsettum tíma skólavist og auka námsúrræði fyrir þann hóp.
Minni hópar eru forsenda einstaklingsmiðaðra námsskráa. Leggja þarf meiri áhersla á samkennd, vellíðan og samvinnu en minni á samkeppni. Þá skulu samræmd próf gerð valkvæð í grunnskólum. Ennfremur er þarft að takmarka heimanám. Mikilvægt er að áfallateymi sé ávallt til staðar og bregðist við af festu þegar áföll verða í fjölskyldum eða meðal kennara. Sömuleiðis þurfa að vera starfandi sálfræðingar innan allra skóla og að nemendur geti leitað til þeirra milliliðalaust.
Öll börn eiga rétt á stuðningi og aðstoð í skóla óháð því hvort þau eru á biðlista eftir greiningu eða ekki. Þarft er að öll stuðnings- og aukakennsla sé á vegum skólanna svo foreldrar þurfi ekki sjálfir að koma börnum sínum til og frá fagaðila á skóla/vinnutíma.
Innflytjendabörn skulu eiga rétt á íslenskukennslu sem og móðurmálskennslu og fólk af erlendum uppruna komið af skólaskyldualdri skal einnig eiga rétt á íslenskukennslu á öllum námsstigum. Þá skuli börn og ungmenni innflytjenda fá stuðning á öllum skólastigum, ekki síst framhaldsskólastigi. Þá þarf túlkaþjónusta að vera tryggð af hinu opinbera.
Börn á flótta skulu eiga rétt á námi á sama hátt og önnur börn á landinu og séu þeim búnar viðunandi aðstæður til að stunda nám í venjulegum hverfisskóla svo í kringum þau myndist eðlilegt tengslanet.
Lýðræðisvæðing skólakerfisins er mikilvæg, ekki hvað síst til að venja börn við lýðræði og efla sjálfstæða hugsun. Vert er að leyfa nemendum að hafa meira um námið að segja auk þess sem gagnkvæm virðing verði höfð að leiðarljósi í öllu skólastarfi. Val á skólastjórnendum þarf einnig að vera lýðræðislegt ferli sem vinnur gegn pólitískum ráðningum og spillingu.
Menntun kennara er afar mikilvæg enda sinna þeir einu ábyrgðarmesta starfi samfélagsins. Því ber að styðja við nám þeirra með öflugum hætti. Símenntun þarf að vera eðlilegur hluti af starfinu og þurfa kennarar tíma til að sinna henni. Fjölga þarf námsleyfum og veita þau fyrr á starfsferlinum en nú er gert. Þá þarf að tryggja eðlilega nýliðun háskólakennara og bæta launakjör og stöðu stundakennara. Námsefnisgerð og þýðing á námsefni verði tekin alvarlega meðal skólayfirvalda og metin til launa.
Efla skal tengsl menntunar og vinnumarkaðs í nánu samstarfi við verkalýðsfélögin og ASÍ. Þá skal huga sérstaklega vel að iðngreinum og mismuna ekki námsgreinum út frá kostnaði. Mikilvægt er að auka við nýsköpun í skólastarfi; auka list- og verknám strax á grunnskólastigi og leggja meiri áherslu á iðn- og verkgreinar á framhaldsskólastigi. Þá verði lýðháskólar raunhæfur valkostur. Raunfærnimat skal viðhaft svo að fólk með reynslu eða menntun erlendis frá fái þekkingu sína metna.
Huga þarf að orsökum brottfalls úr skóla og að framhaldsskólanemendum standi til boða að taka styttri brautir sem skili þeim prófgráðu en þeir geti einnig tekið lengra nám sem skili þeim stúdentsprófi. Ennfremur er mikilvægt að öll skólastig vinni betur saman; að nám í gegnum leik haldi áfram upp í grunnskóla og að aukin áhersla verði lögð á rökhugsun, gagnrýna hugsun, sköpun, samkennd og vellíðan. Stytting framhaldsskólans verði endurskoðuð með tilliti til líðan og streitu nemenda.
Lánasjóður íslenskra námsmanna (LÍN) taki upp styrkjakerfi og kerfið sé gert manneskjulegra þar sem allir hafi færi á að mennta sig hvort heldur er á iðn-, tækni-, háskóla- eða sérskólastigi. Endurskoða þarf gamla námslánakerfið með leiðréttingu í huga og gera fólki kleift að gera upp lánin sín með eðlilegri greiðslubyrði og fella þau niður þegar við á.
Mikilvægt er að styðja í auknum mæli við rannsóknir og stofnun nýrra námsbrauta einkum í grunnnámi á háskólastigi til að búa okkur undir framtíðina. Þá verði boðið upp á fjölbreytt framhaldsnám á háskólastigi og tryggt að ný þekking berist til landsins.
Tryggja þarf sjálfstæða rannsóknarsjóði og koma í veg fyrir að hægt sé að greiða arð úr þeim. Endurskoða skal ráðningarferli háskólakennara og tryggja nægilegt fjármagn fyrir lausráðið akademískt starfsfólk. Þá skal auka og efla styrki til rannsóknar- og doktorsverkefna.