Samgöngumál
Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...
Að samgöngumannvirki og rekstur þeirra séu í eigu þjóðarinnar.
01Að jarðgöng, brýr og vegir séu öllum aðgengilegir án gjaldtöku og veggjöldum verið alfarið hafnað.
02Að tryggð sé nægileg fjármögnun til viðhalds og reksturs samgöngumannvirkja og vegakerfis.
03Að vinna markvisst að umhverfisvænum lausnum í samgöngumálum svo sem með aukinni notkun rafvæddra ökutækja, strætó/borgarlínu og að hvetja til samnýtingar á bílum.
04Að styrkja nýsköpun í útfærslu nýrra farartækja.
05Að byggja upp innviði fyrir fjölbreyttar samgöngur um land allt þar sem tenging milli staða á landi, lofti og sjó sé tryggð.
06Að almannavarnir séu hafðar í fyrirrúmi á öllu landinu og flóttaleiðir tryggðar ef náttúruhamfarir eru yfirvofandi.
07Að flugvellir og hafnir séu í þjóðareign og þær reknar af hinu opinbera.
08Að ferðaþjónusta fatlaðra sé sjálfsögð mannréttindi og ávallt rekin samkvæmt lögum, hún sé gjaldfrjáls og gerð aðgengilegri.
09Að sjúkraflutningar, ferðaþjónusta fatlaðra og önnur sjálfsögð akstursþjónusta sé í almannaeigu en ekki einkarekin eða henni útvistað.
10Að gjaldfrjálst verði í strætó/borgarlínu.
11Að almenningssamgöngur séu efldar innan höfuðborgarsvæðisins með því að þjóna betur úthverfum og vera aðgengilegri fyrir alla hópa.
12Að launakjör og starfsumhverfi starfsmanna í almenningssamgöngum séu bætt.
13Að þjónusta fólks í nærumhverfi sínu sé bætt þannig að hægt sé að draga úr löngum akstursleiðum sér í lagi á landsbyggðinni.
14Að almenningur geti tekið þátt í uppbyggingu samgangna í sínu nærumhverfi og lagt til lausnir að betri hverfum með samvinnu við stjórnvöld.
15Að Internetið sé hluti af samgöngumálum og innviðir fjarskipta séu í almannaeigu.
16Að strandflutningar verði efldir og að þungaflutningar fari sjóleiðina eftir því sem kostur er og hafnir rafvæddar en daglegar nauðsynjavörur fari landleiðina.
17Ítarefni:
Samgöngur eru grunnþjónusta sem allir eiga að hafa góðan aðgang að hvort heldur landfræðilega eða efnahagslega svo fólk komist leiðar sinnar innan lands, innan borgar, bæja og á landsbyggðinni.
Sósíalistaflokkur Íslands vill að öll helstu samgöngumannvirki á landinu séu í eigu þjóðarinnar en ekki einkarekin eða rekstri þeirra útvistað. Þannig skal vegagerðin sem slík vera í eigu almennings og fjármögnun vega og allra samgöngumannvirkja ávallt vera í lagi. Þá sé tryggt að skattar sem eyrnamerktir eru vegagerðinni skili sér í þann málaflokk og ekki lögð veggjöld eða önnur gjöld á göng eða brýr.
Samgöngukerfið skal byggt upp með samgönguöryggi allra að leiðarljósi hvort sem er með hjólastígum, göngustígum, eða sérakreinum fyrir strætó og aðra sérumferð innan borgar, bæja eða milli staða á landsbyggðinni. Þá sé hugað að almannavörnum um allt land og öllum gefinn kostur á gjaldfrjálsum öryggisbúnaði eins og endurskinsmerkjum eða borðum.
Þá sé mismunandi samgöngum ekki stillt upp sem andstæðum pólum heldur hafi fólk frelsi til að velja sér samgöngumáta innan þeirra marka sem samfélagið setur sér þegar kemur að umhverfisvernd og loftslagsmálum. Stefnt sé markvisst að umhverfisvænum lausnum eins og stefna sósíalista í umhverfis- og loftslagsmálum segir til um en einnig skal stefnt að því að jafna kjör fólks þegar kemur að samgöngum með tilliti til búsetu og eða möguleikum á að nota umhverfisvænan samgöngumáta.
Rekstur flugvalla, hafna og annarra samgöngumannvirkja skal endurskilgreindur og þeirri einkavæðingu og útvistun sem orðið hefur á þeim snúið við. Þá skulu samgöngumöguleikar fólks auknir en einnig skal tryggja fólki betri þjónustu í nærumhverfi sínu, sér í lagi á landsbyggðinni.
Strætó/borgarlína og önnur sjálfsögð akstursþjónusta svo sem sjúkrabílar og akstursþjónusta fatlaðra skal vera gjaldfrjáls með öllu og skal slíkur akstur ekki einkavæddur eða honum útvistað á nokkurn hátt heldur haldið í almannaeigu og þjónustan bætt í samvinnu við notendur hennar.
Þá skal skoða öll samgöngumál með almannahagsmuni að leiðarljósi og gefa íbúum kost á að taka þátt í mótun umhverfisins sem þeir búa í hvort heldur er í borg, bæjum eða í dreifbýli. Þannig er hægt að byggja upp betri samgöngur á lýðræðislegan máta.
Internetið skal vera hluti af samgöngumálum og innviðir fjarskipta vera í almannaeigu en þannig skal koma í veg fyrir sóun og verri þjónustu sem fylgir því að mörg fyrirtæki byggi hliðstæð kerfi.