Að tryggja að grunnþörfum allra íbúa sveitarfélaga sé mætt, almenn velferð verði að veruleika fyrir alla, að allir lifi með reisn og önnur mannréttindi séu virt í takt við fremstu ákvæði íslenskra laga og alþjóðlegra skuldbindinga. Sérstaklega sé öryggi barna tryggt og að ákvarðanir séu teknar í samræmi við velferð þeirra.
01
Að sveitarfélög vinni í þágu einstaklinga og fjölskyldna og hlúi sérstaklega að velferð þeirra sem eru í veikri aðstöðu og hafa færri úrræði í lífinu eins og öryrkjar, eldra fólk, innflytjendur og láglaunafólk.
02
Að yngstu börnunum séu búnar aðstæður til þess að þroskast og dafna með fjölskyldu sinni og síðar með jafnöldrum og félögum.
03
Að börnum og ungmennum sé tryggð menntun við hæfi og tryggt verði fjármagn til að skólinn og námsgögn nemenda séu gjaldfrjáls. Framfylgja þarf ítrustu kröfum um jafnrétti í skólastarfi, heilbrigði og velferð barna, læsi og sköpun og kröfur um lýðræði og mannréttindi þeirra virtar til fulls.
04
Að sveitarfélög útbúi raunhæf framfærsluviðmið fyrir þá sem þurfa framfærslu og stuðning frá sveitafélögum þannig að einstaklingum og fjölskyldum sé tryggð örugg framfærsla.
05
Að setja þarfir og rödd notenda félagsþjónustu í fyrsta sæti og auka alla aðgengilega velferðarþjónustu.
06
Að allir eigi rétt á góðu húsnæði. Sveitarfélögunum verði skylt að mæta þörfum íbúa fyrir félagslegt húsnæði. Félagslega rekin leigufélög og einstaklingar gangi fyrir í úthlutun lóða og sveitarfélögin styðji íbúðauppbyggingu á félagslegum forsendum. Að búsetumöguleikum innan sveitarfélaga verði fjölgað og settar verði strangar reglur um starfsemi leigufélaga. Þak verði sett á leiguverð.
07
Að allir eigi rödd sem skiptir máli í samfélaginu. Að íbúar sveitarfélaga verði efldir til að hafa meiri áhrif. Að boðið verði upp á samráðshópa sveitarstjórna með slembivöldum einstaklingum. Sérstaklega verði hugað að sjálfræði íbúa í hverfum stórra sveitarfélaga.
08
Að sveitarfélög hverfi frá láglaunastefnu sinni, útrými henni alveg og verði leiðandi fyrirmynd á vinnumarkaði hvað varðar laun, vinnutíma og önnur kjör starfsfólks.
09
Að tryggja réttindi íbúa til heilsusamlegs umhverfis og efla umhverfisvitund.
10
Að samgöngur miði að því að þjóna íbúum sveitarfélaga og ekki síst þeim tekjulægri. Horfið verði frá því eins og mögulegt er að höfuðborgarsvæðið og stærri sveitarfélög verði áfram bílaborgir. Nýjum hverfum fylgi góðar almenningssamgöngur, það er hluti af innviðum.
11
Að standa vörð um fyrirtæki í eigu sveitarfélaga; að fyrirtæki sem þjóna íbúum sveitarfélaganna verði ekki seld, aðhald og gengsæi verði aukið í stjórnsýslu og rekstri fyrirtækja í eigu sveitarfélaga.
12
Að öll sveitarfélög taki sameiginlega ábyrgð í málefnum fólks í landinu og tryggi jöfnuð íbúa, sveitarfélaga og landshluta. Samvinna sveitarfélaga verði aukin og samræmi verði í gjaldtöku þeirra þannig að ekki myndist „skattaparadísir“.
13
Að sveitarfélögin geri átak í innleiðingu stjórnsýslulaga og upplýsingalaga í starfsemi sinni og auki gegnsæi starfa sinna. Sveitar- og bæjarstjórar og borgarstjóri verði fagmenn en ekki pólitískir foringjar. Leitað verði leiða til þess að tryggja lýðræðislega aðkomu íbúa og eðlilega ábyrgðarkeðju og gegnsæi í starfi fyrirtækja í eigu sveitarfélaga; jafnvel með stofnun nýs stjórnsýslustigs.
14