Velferðarmál
Stefna Sósíalistaflokks Íslands er ...
Að hér á landi sé rekið velferðarsamfélag þar sem unnið er markvisst að réttlátri skiptingu gæða og útrýmingu fátæktar.
01Að öllum sé tryggður aðgangur að velferðarkerfi með lögum án tillits til greiðslugetu, óháð kyni, uppruna, trú, fötlun, aldri, eða kynverund.
02Að velferðarþjónusta sé ekki rekin í hagnaðarskyni.
03Að notendur komi að stjórnun velferðarmála, hafi rétt á að kjósa sér fulltrúa og sitja í nefndum og stjórnum sem hið opinbera setur á stofn.
04Að enginn verði framfærslulaus og skal íslenska ríkið tryggja lífeyrisþegum, öldruðum, atvinnulausum og öðrum sem þess þurfa öruggt lífsviðurværi.
05Að ríkið sem og stærri sveitarfélög setji fram framfærsluviðmið sem taki mið af launaþróun, húsaleigu og öðrum sveiflum í kostnaði.
06Að tryggja greiðan aðgang að öllum réttindum í velferðarkerfinu í gegnum þjónustufulltrúa sem veitir aðstoð sem og umboðsmann velferðarmála sem hægt er að leita til ef brotið er á rétti einstaklings.
07Að fólk haldi réttindum sínum innan velferðarkerfisins þrátt fyrir að flytjast milli sveitarfélaga eða til annarra landa til tímabundinnar dvalar.
08Að félagsleg úrræði séu óháð búsetu og fólki því ekki mismunað milli sveitarfélaga.
09Að börn og barnafjölskyldur njóti sérstakrar verndar og að öll börn sitji ætíð við sama borð efnahagslega.
10Að þjónusta við langveik börn og réttindi þeirra rofni ekki við sjálfræðisaldur.
11Að öllum sé tryggð búseta við hæfi samanber stefnu sósíalista í húsnæðismálum.
12Að örorkulífeyriskerfið verði eflt en starfsgetumati hafnað í samræmi við vilja ÖBÍ og krónu-á-móti-krónu-skerðingum hætt.
13Að eldri borgurum sé tryggð þjónusta við hæfi hvort sem um heimaþjónustu eða þjónustu á hjúkrunar- eða sjúkrastofnunum sé að ræða eða aðra félagslega þjónustu.
14Að sérstaklega sé hugað að velferð ýmissa viðkvæmra hópa og jaðarsettra.
15Að fíknisjúkdómurinn sé afglæpavæddur og tekið á honum sem heilbrigðisvanda.
16Ítarefni
Á Íslandi er velferð lögbundin og skal vera aðgengileg öllum án skilyrða, óháð kyni, uppruna, aldri, trú, fötlun eða kynhneigð einnig þeim sem hingað koma vegalausir. Velferðarkerfið snýst um að skapa þær aðstæður sem þarf til að fólk finni til öryggis og líði vel, tryggja að grunnþörfum allra sé mætt svo fólk geti lifað með reisn og notið almennra mannréttinda í samræmi við ákvæði íslenskra laga og alþjóðlegra skuldbindinga.
Tryggja skal samstarf milli ríkis og sveitarfélaga svo grunnþjónusta velferðarmála sé ávallt áreiðanleg. Þá skal vera lögbundið að sveitarfélög veiti þjónustu í velferðarmálum hvort heldur er um húsnæði eða aðra grunnþjónustu að ræða. Þá skal ríkið sem og sveitarfélög reikna út og birta raunhæf neysluviðmið sem opinberar stofnanir og aðrir geta notast við í útreikningum sínum.
Opinberar stofnanir í þjónustu almennings skal ekki einkavæða og skal ríkið ekki styrkja hagnaðardrifna velferðarþjónustu. Þá skulu gilda ströng lög um hvaða eignar- og rekstrarform verði heimilt að nota í slíkri þjónustu og eftirlit haft þar með.
Notendur eiga að hafa virka og gilda aðild að stjórn velferðarkerfis í gegnum hagsmunahópa notenda. Þá sé hlustað á kröfur og ályktanir slíkra hópa en einnig sé hlustað á þarfir og vilja barna og í tilfelli barnaverndar sé einnig hlustað á fólk sem hafði reynslu af kerfinu á barnsaldri.
Velferðarkerfið á að stuðla að góðri andlegri sem líkamlegri heilsu og styðja þá sem missa færni og framfærslutekjur. Kerfið á að gagnast notendum vafningalaust. Þá skal tryggja betri samfellu í stefnumótun þess og undirstrika mannhelgi og velferð í íslensku samfélagi.
Ríkið á að sjá íbúum hvers sveitarfélags fyrir þjónustufulltrúa velferðarmála sem veitir að fyrra bragði upplýsingar um réttindi fólks og tryggir þannig upplýsingaflæði þegar aðstoðar er þörf. Fólk á ekki að þurfa að bíða í óvissu með framfærslu og sanna fyrir stofnunum á hvers hendi það sé að greiða; sveitarfélagsins, ríkisins, stéttafélagsins eða annarra. Þannig er mikilvægt að starfsmenn velferðarkerfisins skapi einstaklingnum ekki meira óöryggi en hann stendur frammi fyrir þegar neyðin kallar. Þá skal ríkið skipa umboðsmann velferðarmála til að gæta réttaröryggis fólks í tengslum við stjórnsýsluframkvæmdir, kæruleiðir og fleira. Til að tryggja hlutleysi í málum skal slíkt umboðsmannsstarf vera kostað af ríki en ekki sveitarfélagi svo hagsmunagæsla byggðarlags ráði ekki för.
Tryggja skal að réttindi séu virt og að íbúar mismunandi sveitarfélaga sitji við sama borð þegar kemur að þjónustu og velferð. Þannig skal efla samstarf ríkis og sveitarfélaga með það að markmiði að þjónustustig félagslegrar þjónustu sveitarfélaga sé hátt og að þau geti ekki firrt sig ábyrgð þegar kemur að velferð. Þá sé aðstöðumun fólks sem býr á landsbyggðinni eytt þegar kemur að kostnaði við að sækja sér þjónustu á vegum ríkisins.
Tryggja skal að fólk missi ekki réttindi sín við flutninga hvort heldur sé milli sveitarfélaga eða tímabundið til útlanda. Langveik börn missi ekki réttindi og þjónustu við sjálfræðisaldur og þörfum barnafjölskyldna sé sérstaklega mætt svo öll börn sitji við sama borð. Tryggja skal sérstaklega réttindi fatlaðra barna með tvöfalda búsetu. Þá skulu öll opinber úrræði fyrir börn svo sem skólar og heilbrigðisþjónusta ætíð vera gjaldfrjáls.
Vikið sé frá hugmyndinni um starfsgetumat í stað örorkumats en endurhæfing og möguleikar til atvinnuþátttöku örorkulífeyrisþega efldir og unnið gegn fordómum gegn fötlun á vinnumarkaði. Jafnframt sé afnumin krónu-á-móti-krónu-skerðing.
Mikilvægt er að málefni eldri borgara séu tekin föstum tökum og unnið markvisst að því að útrýma fátækt og biðlistum eftir viðunandi úrræðum. Þá verði persónulegt og félagslegt tengslanet fólks eflt og unnið gegn einmanaleika. Það verði meðal annars gert með nýjungum í hönnun sambýlishúsa fyrir eldri borgara. Þá skal hverfisbundin félagsþjónusta efld og sveitarfélög sem og hverfamiðstöðvar sporna gegn einangrun og einmanaleika í gegnum félagsleg úrræði og iðju sem efla tengslanet fólks.
Lífeyrisþegar, atvinnulausir og aðrir sem reiða sig á velferðarkerfið geti ávallt sótt sér endurhæfingu og virkni sér að kostnaðarlausu til að efla lífsgæði sín. Þá skal markvisst barist gegn fordómum gegn þeim sem þurfa að þiggja félagslega aðstoð eða framfærslu.
Fíknisjúkdómurinn skal vera afglæpavæddur en tekið á þeim vanda sem fíkniefnaneysla skapar sérstaklega innan heilbrigðisþjónustunnar og félagsþjónustunnar og úrræði fíknimeðferða stórlega efld. Sérstaklega verði hugað að forvörnum og taki þær mið af gagnreyndri þekkingu á þeim áhættuþáttum sem leiða til upphafs fíkniefnaneyslu.