Sósíalistaflokkurinn hvetur almenning til að losa sig við ríkisstjórnina

Stjórnir flokksins Tilkynning

Sósíalistaflokkur Íslands krefst þess að Bjarni Benediktsson segi af sér sem ráðherra. Bjarni ber ábyrgð á sölu á hlut almennings í Íslandsbanka sem ýmsar úttektir og rannsóknir hafa sýnt fram á að einkenndist af fyrirhyggjuleysi og vangetu til að hlýða lögum og góðum siðum. Bjarni ber því að segja af sér. Sósíalistar hafna algjörlega fullyrðingum Bjarna og annarra ráðherra um að Bjarni hafi axlað ábyrgð á hinni mislukkuðu sölu með því að færa sig yfir í utanríkisráðuneytið. Fullyrðingar ráðherranum um slíkt sýna að þeir hafa ekki hugmynd um hvað ábyrgð er.

Í lýðræðissamfélagi er mikilvægt að stjórnvöld stjórni í takt við vilja lýðsins, almennings. Núverandi ríkisstjórn fer gegn vilja mikils meirihluta almennings í svo til öllum mikilvægum málum. Salan á hlut almennings í Íslandsbanka afhjúpar þetta vel. Samkvæmt könnunum vildi mikill meirihluti almennings ekki selja bankann. Yfirgnæfandi meirihluti var ósáttur við hvernig staðið var að sölunni. Langflestir kjósenda vildu að Bjarni segði af sér og tæki ekki sæti aftur í ríkisstjórn.

Þrátt fyrir þetta ætlar ríkisstjórnin að selja bankann og Bjarni situr sem fastast. Ríkisstjórnin virðist telja sig brimvarða gegn vilja almennings. Forystufólk hennar heldur reglulega fundi sjálfsupphafningar þar sem það lýsir yfir trausti hvert á öðru þótt þjóðin trausti þeim alls ekki. Það er eins og ráðherrarnir séu orðnir algjörlega ónæmir fyrir vilja almennings, telji sig geta hunsað mótmæli, skoðanakannanir, undirskriftalista og þjóðaratkvæðagreiðslur, allt sem dregur fram vilja og afstöðu almennings.

Gegn vilja almennings stilla ráðherrarnir fram kröfum auðvaldsins. Ef auðvaldið vill eignast banka þá skal banki seldur. Ef auðvaldið vill viðhalda skorti og okri á húsnæðismarkaði þá skal látið undan vilja þess. Ef auðvaldið vill eiga fiskimiðin þá skal þeim gefin þau. Ef auðvaldið vill ná undir sig heilbrigðis- og menntakerfið skal stefnt á einkavæðingu og útvistun þeirra. Ef auðvaldið vill borga minni skatta skal skattur þess lækkaður þótt það kosti hallarekstur á ríkissjóði og sífellt hærri vaxtagreiðslur sem lama getu ríkissjóðs til að halda úti opinbera þjónustu og byggja upp innviði. Ef auðvaldið vill viðhalda fátækt leigjenda, lágtekjufólks, öryrkja, einstæðra foreldra, aldraðra og innflytjenda þá skal þessum fjölmennum hópum haldið við fátæktarmörk en hin auðugustu styrkt með fégjöfum.

Ríkisstjórnin hefur búið til kerfi þar sem Morgunblaðið, Samherji og Ísfélagið í Vestmannaeyjum fá háa styrki úr ríkissjóði. Almannasjóðir eru notaðir til að auka völd og auð auðvaldsins en draga niður afl og þrek almennings og baráttusamtaka þeirra.

 

Í erindi Sósíalista, Ráðumst að rótum spillingar, segir meðal annars:

„Mesta og versta spillingin sem við er að glíma á Íslandi er afleiðing af miklum og margvíslegum hagsmunatengslum stjórnmálalífs og peningavalds sem hafa fengið að þrífast allt of lengi í skjóli leyndar og lyga. Hagsmunatengslum sem snúast um og byggjast á gagnkvæmri greiðvikni, vinahygli og einkavinavæðingu.

Þessi sérhagsmunatengsl hafa spillt stjórnmálum og stjórnsýslu landsins, skekkt réttarkerfið og aðra þætti ríkisvaldsins svo mikið að ríkið, sem fær vald sitt frá fólkinu og á ávallt og einungis að standa vörð um hagsmuni þess, tekur nú hagsmuni hinna fáu, ríku og valdamiklu fram yfir hagsmuni fjöldans.

Eitt mikilvægasta verkefni stjórnmálanna er því að snúa ríkisvaldinu af þessari braut sérhagsmunagæslu og mismununar og verja samfélagið allt, allan almenning og sérstaklega þá sem valdlausastir eru, minnst fá og ekkert eiga fyrir spillingu valdhafa og sérhagsmunafla.

Þar sem svo stutt er á milli valdhafa ríkis og sveitarfélaga og auðmanna, eigenda og stjórnenda stórfyrirtækja og hagsmunasamtaka þeirra, eins og raunin er hér á landi, er gríðarlega frjór jarðvegur fyrir spillingu. Og spillingi dafnar hvergi betur en þar sem eru náin tengsl milli valdamikilla stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna og stórfyrirtækja og hagsmunasamtaka þeirra.“

 

Núverandi ríkisstjórn þjónar auðvaldinu og vinnur gegn hagsmunum almennings. Ráðherrar taka undir allar kröfur Samtaka atvinnulífsins en engar af þeim sem samtök launafólks leggja fram. Ríkisstjórnin er með ráðagerðir um að auka svo völd ríkissáttasemjara að hann geti blásið af verkföll, mikilvægasta baráttutæki almennings. Stjórnin hefur stillt sér upp við hlið auðvaldsins í stéttastríðinu, vill færa samfélagið enn lengra í átt að alræði auðvaldsins. 

Þessi stefna hefur rúið ríkisstjórnina trausti almennings. Hún er án umboðs almennings og vinnur gegn hagsmunum hans. Sósíalistaflokkurinn hvetur almenning til að varpa af sér þessari ríkisstjórn. Í lýðræði er almenningur uppspretta valdsins. Ríkisstjórn sem vinnur gegn vilja almennings í einu og öllu stundar í reynd valdarán. Almenningur getur aðeins endurheimt völd sín með því að fella þessa ríkisstjórn. Það er ekki nóg, en það er áfangi.

Samið og samþykkt á sameiginlegum fundi framkvæmda- og málefnastjórnar Sósíalistaflokksins.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram