Ráðumst að rótum spillingar

Ritstjórn Áætlanir

Erindi Sósíalistaflokksins í kosningum til alþingis 25. september 2021: Níunda tilboð til kjósenda lagt fram 20. ágúst:

RÁÐUMST AÐ RÓTUM SPILLINGAR

Hvað er spilling?

 • Spilling er misbeiting valds í þágu sérhagsmuna.
 • Spilling er gríðarleg ógn við hagsmuni alls almennings.
 • Spilling þrífst á mismunun og elur af sér mismunun. Hún mismunar fólki á grundvelli efnahags, félagslegrar stöðu, uppruna, kynferðis, skoðana o.s.frv.
 • Spilling vegur að lífskjörum almennings, eykur ójöfnuð og viðheldur fátækt.
 • Spilling bitnar mest og verst á þeim sem eru valdlausastir og minnst fá og ekkert eiga.
 • Spilling leiðir til óréttlátrar skiptingar arðs af auðlindum sem þjóðin á og á að njóta ávinningsins af.
 • Spilling grefur undan lýðræði, mannréttindum og réttarríkinu.Spilling leiðir til umhverfisspjalla, mengunar og ofnýtingar og sóunar náttúruauðlinda.

Hver er rót spillingar?

Mesta og versta spillingin sem við er að glíma á Íslandi er afleiðing af miklum og margvíslegum hagsmunatengslum stjórnmálalífs og peningavalds sem hafa fengið að þrífast allt of lengi í skjóli leyndar og lyga. Hagsmunatengslum sem snúast um og byggjast á gagnkvæmri greiðvikni, vinahygli og einkavinavæðingu.

Þessi sérhagsmunatengsl hafa spillt stjórnmálum og stjórnsýslu landsins, skekkt réttarkerfið og aðra þætti ríkisvaldsins svo mikið að ríkið, sem fær vald sitt frá fólkinu og á ávallt og einungis að standa vörð um hagsmuni þess, tekur nú hagsmuni hinna fáu, ríku og valdamiklu fram yfir hagsmuni fjöldans.

Eitt mikilvægasta verkefni stjórnmálanna er því að snúa ríkisvaldinu af þessari braut sérhagsmunagæslu og mismununar og verja samfélagið allt, allan almenning og sérstaklega þá sem valdlausastir eru, minnst fá og ekkert eiga fyrir spillingu valdhafa og sérhagsmunafla.

Þar sem svo stutt er á milli valdhafa ríkis og sveitarfélaga og auðmanna, eigenda og stjórnenda stórfyrirtækja og hagsmunasamtaka þeirra, eins og raunin er hér á landi, er gríðarlega frjór jarðvegur fyrir spillingu. Og spillingi dafnar hvergi betur en þar sem eru náin tengsl milli valdamikilla stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna og stórfyrirtækja og hagsmunasamtaka þeirra.

Það verður að fletta ofan af þessum hagsmunatengslum sem eru skaðleg fyrir fólkið í landinu og rjúfa þau með öllum tiltækum ráðum. Sósíalistaflokkurinn mun gera allt sem í hans valdi stendur til þess. Þar dugar ekki nein hálfvelgja, vettlingatök og kjarkleysi.

Þar sem atvinnulíf er einhæft og fá stór fyrirtæki ráða því alfarið hverjir fá störfin og hverjir ekki, þar grasserar spillingin og sú ömurlega mismunun, kúgun, þöggun, valdleysi og niðurlæging sem spillingin veldur. Sveitarstjórnir eru líka undir járnhæl þessa ólýðræðislega og óþolandi valds fyrirtækja og peningafólks yfir lífi og tækifærum fólks.

Sveitarstjórnirnar vita mjög vel til hvers fyrirtækin ætlast af þeim og þær vita einnig fullkomlega hvaða áhrif það hefur á tekjur sveitarfélagsins og atvinnu fólksins ef fyrirtækin flytja starfsemi sína annað, eins og þeim er í lófa lagið að gera og hóta iðulega beint og óbeint.

Þetta kyrkingartak eigenda og stjórnenda stórfyrirtækja á byggðum og fólkinu sem þar býr herðist og versnar ef byggðirnar eiga undir högg að sækja, atvinnutækifærin eru fá og fólkinu fer fækkandi. Fólk á þó ekki aðeins atvinnu sína og framfærslu sína og fjölskyldu sinnar undir náð og miskunn fyrirtækjanna og stjórnenda þeirra, heldur er það jafnframt í raun svipt mikilvægustu lýðræðislegu réttindunum, skoðana- og tjáningarfrelsinu og fleiri mannréttindum, af þeim sem stýra og stjórna í krafti auðvalds.

Hver getur leyft sér að gagnrýna fyrirtæki, eigendur þess eða stjórnendur þegar hann veit að ef hann er ekki þægur verður hann rekinn og fær ekki aðra vinnu og getur því ekki framfleytt sér og fjölskyldu sinni?

Svona er þetta víða í okkar auðuga landi. Óréttlátt, óþolandi og óverjandi staða sem verður enn skelfilegri þegar eigendur og stjórnendur fyrirtækja byggja auð sinn og vald yfir samfélaginu á rétti til að nýta náttúruauðlindir sem fólkið í landinu á samkvæmt lögum, en er þó neitað um að fá að nýta og ræður í raun engu um hvernig þær eru nýttar.

Spilling virðir engin landamæri og fátækasta fólkið og fátækustu þjóðirnar í heiminum þjáist mest vegna spillingarinnar. Stórfyrirtæki í ríkum löndum og alþjóðlegir auðhringir kaupa sér aðgang að auðlindum fátækustu ríkjanna sem geta ekki brauðfætt þjóðir sínar, hvað þá veitt þeim nauðsynlega heilbrigðisþjónustu eða gefið börnum og ungmennum tækifæri til lágmarksmenntunar.

Fyrirtæki og einstaklingar borga meira en eitt þúsund milljarða Bandaríkjadala í mútur á hverju ári, að mati Alþjóðabankans. En skaðinn sem spillingin veldur er miklu meiri. Áætlað er að á bilinu tuttugu til fjörutíu milljarðar Bandaríkjadala af þróunaraðstoð hverfi í hít spillingarinnar á hverju ári.

Hvað er til ráða?

Markmið Sósíalistaflokks Íslands er að almenningur taki völdin af auðvaldinu, að ríkisvaldið og stofnanir þess þjóni hagsmunum almennings og að samfélagið verði byggt upp af vonum og væntingum fjöldans en ekki eftir kröfum hinna fáu. Markmið flokksins er að lýðræðisvæða atvinnulífið svo almenningur fái völd yfir fyrirtækjunum svo atvinnulífið mótist eftir hagsmunum hans en ekki þeirra sem hafa dregið upp úr þeim fé. Þessi valdatilflutningur frá hinum fáu, ríku og valdamiklu til alls almennings mun höggva að rótum spillingar.

En á leiðinni að þessu markmiði gerir Sósíalistaflokkurinn kjósendum tilboð um að vinna að eftirfarandi:

 • Auka gagnsæi hjá hinu opinbera og hjá skráðum fyrirtækjum til að tryggja upplýsingarétt almennings.
 • Styrkja skoðana- og tjáningarfrelsi. Styðja frjálsa fjölmiðla með því að styrkja blaðamenn beint í stað þess að styrkja ritstjórnir fjölmiðla í eigu auðfólks. Auka sjálfstæði Ríkisútvarpsins og gera það aftur að stofnun, auka völd starfsfólks og breikka stjórn þess svo fulltrúar almannasamtaka eigi þar sæti. Breyta Ríkisútvarpinu í þjóðarútvarp, kljúfa það frá flokksræði elítustjórnmálanna.
 • Efla hagsmunaskráningu pólitískra og ópólitískra valdhafa hjá ríki og sveitarfélögum. Færa eftirlit með þessu frá forsætisráðuneytinu til óháðrar stofnunar sem hafi vald til eftirfylgni og inngripa.
 • Auka virka vernd uppljóstrara og styrkja ný lög um hlutverk þeirra í samfélaginu.
 • Auka raunveruleg ábyrgð valdhafa. Ábyrgðarskylda valdhafa er varnartæki almennings gegn misbeitingu valds, yfirsjónum og umboðssvikum.
 • Styrkja sjálfstæði óvilhallra dómstóla. Ryðja dóma ef þess gerist þörf til að vinda ofan af spillingu liðinna áratuga.
 • Auka sjálfstæði lögreglu og vernda hana gegn afskiptum framkvæmdavalds.
 • Styrkja efnahagsbrotadeild lögreglu og skattrannsóknir svo starfsfólk þessara stofnana geti séð við þeim sérfræðingum hinna auðugu, sem vinna við að fela slóð þeirra.
 • Auka sjálfstæði ákæruvalds og vernda gegn afskiptum framkvæmdavalds eða tilraunum fjárveitingavaldsins til að lama það með fjársvelti
 • Innleiða samning Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu sem íslenska ríkið skuldbatt sig til að gera 2011.
 • Byggja upp burðugar, sjálfstæðar og óháðar eftirlits- og upplýsingastofnanir, svo sem Umboðsmann Alþingis, Ríkisendurskoðun, Samkeppniseftirlit, Umhverfisstofnun, Hagrannsóknastofnun, Hagstofu, mannréttindastofnun o.fl. til að tryggja virkt eftirlit og réttar upplýsingar.
 • Byggja upp sérstaka and-spillingarstofnun sem vinni að því að upplýsa um spillingu og vinna gegn henni.
 • Íslenska ríkið standi við fjölþjóðlegar skuldbindingar um aðgerðir gegn spillingu. Samstarf við aðrar þjóðir og fjölþjóðlegar stofnanir á þessu sviði eflt.
 • Styrkja og styðja frjáls félög sem vinna gegn spillingu.

Kosningaáætlanir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram