Stöðvum skattaundanskot

Ritstjórn Frétt

Erindi Sósíalistaflokksins í kosningum til alþingis 25. september 2021: Fjórða tilboð til kjósenda lagt fram um hvítasunnu:

SÓSÍALÍSK SKATTASTEFNA II. HLUTI:
STÖÐVUM SKATTAUNDANSKOTIN

Niðurbrot og veiking alls eftirlits með fyrirtækjum og fjármagni var hluti af umbreytingum nýfrjálshyggjuáranna. Það byggði á þeirri hugsun sem Ronald Reagan orðaði svo: Ríkið getur aldrei orðið lausnin því ríkið er vandamálið. Því var hafnað að ríkisvaldið gæti bætt atvinnulífið með því að fylgja eftir kröfum almannavaldsins, því var haldið fram að markaðurinn myndi leiðrétta sig sjálfur ef þar myndaðist óeðlilegt ástand.

Og þessi vantrú á eftirlitshlutverk almannavaldsins náði inn í skattkerfið. Skattabreytingar voru ekki knúðar fram til að viðhalda réttlæti heldur til að mæta kröfum fyrirtækja- og fjármagnseigenda um lægri skattgreiðslur og minna skatteftirlit. Þetta var drifið áfram af sannfæringu um að í raun væri fénu betur komið hjá hinum ríku en í almannasjóðum. Þetta var því kerfisbundin árás á almannasjóði, gerð til að flytja völd og fjárhagslegt afl frá lýðræðisvettvanginum og út á hinn svokallaða markað, sem í reynd er valdasvæði auðvaldsins.

Niðurbrot skattkerfisins og skatteftirlits er nú alþjóðlegt vandamál. Tekjuöflun ríkissjóða hefur verið veikt með skattasamkeppni milli ríkja, sem leitt hefur til hraðra skattalækkana á fjármagns- og fyrirtækjaeigenda um allan heim. En skattalækkanir eru aðeins hluti vandans; stærsti vandinn er flótti fjár í skattaparadísir og æ götóttara skattkerfi innan ríkjanna. Íslendingar verða að taka þátt í vörnum gegn þessu á alþjóðavettvangi og vera þar í farabroddi, en það er líka sitthvað sem við getum gert á heimavígstöðvunum.

Sósíalistar leggja einkum til þrjú atriði; að svipta eignarhaldsfélög sjálfstæðri skattalegri aðild, að takmarka heimildir til að nýta fjármagnskostnað til frádráttar áður en skattur er lagður á og að stórefla skatteftirlit, einkum með auðugustu fjármagnseigendunum og stórfyrirtækjum.

II. Stöðvum skattaundanskot:
Fellum eignarhaldsfélögin

Eignarhaldsfélög án annars rekstrar en umsjón eigna eru farvegur fyrir undanskot skatta og hafa einkum verið stofnuð í þeim tilgangi. Arður úr rekstrarfélögum, raunverulegum fyrirtækjum sem framleiða vöru eða þjónustu, er fluttur upp í eignarhaldsfélög þar sem ótal tækifæri eru til að fresta greiðslu skatta og á endanum að komast hjá öllum skattgreiðslum. Á árunum fyrir Hrunið 2008 voru stórfelldar fjárhæðir fluttar með þessum hætti í fyrirtæki í aflöndum sem borguðu enga skatta á Íslandi. Eftir Hrun var skattalögum breytt svo horft var fram hjá félögum á erlendum lágskattasvæðum og eigendur þeirra skattlagðir eins og félögin væru ekki til, væru ekki sjálfstæðir skattaðilar.

Nú er tíminn til að stíga næstu skref og gera það sama við öll eignarhaldsfélög, félög sem hafa enga starfsemi aðra en umsjón eigna, og skattleggja eigendur þeirra beint eins og félögin væru ekki til. Arðgreiðslur til eignarhaldsfélaga yrðu þá skattlagðar strax sem arður til eigendanna í sama hlutfalli og eign þeirra er í félaginu og sama ætti við um aðrar tekjur þess svo sem vexti og söluhagnað.

Eignarhaldsfélög hafa engan rekstarlegan tilgang umfram venjulegan bankareikning og alls engan samfélagslegan tilgang. Þau eru helstu verkfæri hins fjármáladrifna kapítalisma, sem hefur ekki aðeins veikt samfélagið heldur étið að innan fyrirtæki í raunverulegum rekstri, veikt þau efnahagslega og ruglað stefnu þeirra. Það hefur því engan samfélagslegan tilgang að líta á þessi félög sem sjálfstæða skattaðila. Þau eru fyrst og fremst verkfæri til að soga fé upp úr öðrum fyrirtækjum og samfélaginu og flytja til eigenda sinna með sem minnstum skattgreiðslum.

II. Stöðvum skattaundanskot:
Drögum úr vægi frádráttar

Fyrirtæki hafa heimild til að draga útgjöld frá tekjum áður en kemur að álagningu tekjuskatts. Meðal þessara útgjalda eru fjármagnsliðir svo sem afskriftir og vextir. Þetta hefur verið misnotað með margvíslegum hætti til skattaundanskota. Við þekkjum dæmi frá álverum sem greiða móðurfélögum sínum háa vexti af öllum stofnkostnaði svo hagnaður rekstrarfélaganna er nánast enginn og þar af leiðandi skattgreiðslur litlar ef nokkrar. Við þekkjum dæmi af útgerðum sem kaupa togara sem duga munu í þrjátíu ár en sem afskrifaðir eru á átta árum til að draga sem mest úr skattgreiðslum.

Þrengja þarf allar reglur um mat á fjármagnsliðum svo skattgreiðslur endurspegli raunverulegan rekstur fyrirtækja. Veita þarf skattyfirvöldum heimild til að skattleggja rekstur fyrirtækja út frá tekjum að frádregnum útgjöldum áður en kemur að fjármagnsliðum ef grunur er um misnotkun slíks frádráttar eða ef hann er óheyrilega hár.

Ofurlaun eiga ekki að vera metinn sem eðlileg útgjöld fyrirtækja. Fyrirtæki ættu að hafa heimild til að bókfæra kostnað vegna launa upp að þreföldum lágmarkslaunum en laun umfram það yrðu ekki talin til útgjalda og væru alfarið á kostnað eigenda fyrirtækjanna, en ekki að hluta til greidd með lækkun skatta eins og nú er.

Fjölgun leiða til undanskota á nýfrjálshyggjutímanum hafa ekki aðeins minnkað tekjur ríkissjóðs heldur brenglað allt atvinnulífið. Áherslan hefur flust frá rekstri fyrirtækja með raunverulegan rekstur, framleiðslu og sölu vöru eða þjónustu, og yfir í fjármálarekstur. Það er meira fé að hafa út úr því að snúa á skattinn en að standa sig betur í rekstri eða þjóna neytendum betur. Kerfið verðlaunar svindl meira en dugnað.

II. Stöðvum skattaundanskot:
Skattrannsóknir á stórfyrirtækjum

Skattrannsókn á stórfyrirtækjum og eignarhaldsfélögum hinna auðugu er allt of veik í íslensku samfélagi. Það er vitað að skattsvik og skattaundanskot aukast eftir því sem fólk hefur hærri tekjur og á meiri eignir. Aðaláhersla skattrannsókna ætti því að vera á skattskil auðugustu fjármagnseigendanna og stærstu fyrirtækjanna. Fullyrða má að engin starfsemi hins opinbera muni skila jafn miklum tekjum í ríkissjóð og efling skatteftirlits með auðugasta fólkinu og fyrirtækjum þess.

Skattrannsóknir hafa nánast alla tíð verið veikar á Íslandi enda hefur það verið markmið þess flokks sem lengst af hefur stýrt fjármálaráðuneytinu að halda skattrannsóknum í lágmarki. Þessu þarf að breyta með afgerandi hætti, byggja upp öflugt embætti skattrannsóknarstjóra sem hefur burði til að byggja upp starfsmannahóp sem ræður við klæki endurskoðanda og lögfræðinga hinna ríku. Markmiðið er ekki aðeins að styrkja tekjuöflun heldur að laga samkeppnisstöðu smærri og millistórra fyrirtækja sem greiða skatta sína að fullu gegn stórfyrirtækjunum sem hafa góða aðstöðu til skattaundanskota.

Líta ætti á skattrannsóknarfólk sem lykilfólk ríkisrekstrarins, fólk sem tryggir að tekjuöflun ríkissjóðs sé virk og réttlát. Halda þarf almenningi upplýstum um starf skattrannsóknarstjóra og þær aðferðir sem notaðir eru til að komast hjá eðlilegum greiðslum í almannasjóði.

II. Stöðvum skattaundanskot:
Tilboð sósíalista

Fjórða tilboð sósíalista til kjósenda vegna kosninganna í haust um varnir gegn skattsvikum er að girða fyrir misnotkun eignarhaldsfélaga til skattaundanskota, skerða möguleika fyrirtækja til að draga úr skattgreiðslum með óeðlilegum fjármagnskostnaði, stöðva frádrátt vegna ofurlauna og stórefla skattrannsóknir á stórfyrirtækjum og auðugustu fjármagnseigendum.

Þetta er ekki aðeins nauðsynlegt til að styrkja tekjur ríkissjóðs heldur mikilvægt til að vinna gegn fjármálavæðingu atvinnulífsins sem hefur veikt það og skaðað. Skattabreytingar nýfrjálshyggjuáranna voru ekki bara gripdeildir úr almannasjóðum heldur skekktu þær allar leikreglur samfélagsins, færðu áherslur frá verðmætasköpun atvinnulífsins að því hvernig hin fáu ríku og valdamiklu gátu dregið að sér sem mestan auð.

Og þetta er hvergi meira áberandi en í niðurbroti samfélagslegra markmiða og einkavæðingu auðlinda almennings. Þriðja markmið skattastefnu kærleikshagkerfisins er því að ná auðlindum lands og þjóðar aftur til almennings svo þær verði aflvaki samfélagsuppbyggingar sem byggð er á réttlæti, jöfnuði og mannúð.

Hér má lesa III. hluta tilboðsins:
Auðlindirnar til almennings

Samþykkt á sameiginlegum fundi framkvæmda- og málefnastjórna Sósíalistaflokks Íslands laugardaginn fyrir hvítasunnu, 22. maí 2021

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram