Sósíalísk byggðastefna

Ritstjórn Áætlanir

Erindi Sósíalistaflokksins í kosningum til alþingis 25. september 2021: Ellefta tilboð til kjósenda lagt fram 26. ágúst:

SÓSÍALÍSK BYGGÐASTEFNA

Eitt helsta einkenni nýfrjálshyggjuáranna var blind trú á að aukin skilvirkni og samþjöppun myndi ætíð leiða til betri nýtingu fjármuna og þar með að bestu niðurstöðu. Þessi trúarsannfæring féll í Hruninu 2008 og afhjúpaðist endanlega í kórónakreppunni. Það kom í ljós að atvinnulíf, innviðir og grunnkerfi sem rekin höfðu verið eftir þessum markmiðum áratugum saman voru of veik til að standa af sér áföll. Þessi kerfi skorti sveigjanleika, styrk og seiglu.

Á þetta er bent hér vegna þess að staða landsbyggðarinnar í dag ber öll einkenni ofurtrúar stjórnvalda á skilvirkni og samþjöppun. Fiskveiðum hefur verið stjórnað með því markmiði að auka hagræðingu með stærðarhagkvæmni með tilheyrandi samþjöppun og óhjákvæmilegri byggðaröskun; kvóti er rifinn úr einni byggð til að auka hagkvæmni í þeirri næstu. Utanumhald og viðhald grunnkerfa, svo sem vega, orku og fjarskipta, var flutt úr valddreifðu kerfi yfir í miðstýrð bákn þar sem ákvarðanir voru teknar fjarri íbúunum. Kröfur um skilvirkni og samþjöppun í heilbrigðiskerfinu leiddu til veikingar heilbrigðisþjónustu í héraði til að fóðra vöxt miðstýrðrar einingar. Atvinnulíf á landsbyggðinni, sem verið hafði valddreift með mörgum kjörnum, tók æ meiri svip af útibúum, breyttu byggðunum í einskonar verstöðvar sem bjuggu til verðmæti sem ráðstafað var allt annars staðar. Sjálfstæði byggðanna var brotið niður.

Þannig hefur byggðastefna Sjálfstæðisflokks og Framsóknar leikið landsbyggðina; veikt byggðirnar, flutt völd og fé burt og svipt íbúanna yfirráðum yfir auðlindunum, þeim náttúrugæðum sem eru forsenda búsetunnar. Þessir flokkar, sem kynna sig sem gæslumenn landsbyggðarinnar, bera mestu ábyrgð á byggðastefnu stjórnvalda á lýðveldistímanum og sérstaklega síðustu þrjátíu árin. Og stefna stjórnvalda hefur verið sú að veikja byggðirnar og styrkja miðstýrt vald ríkisins og stærstu fyrirtækjanna, draga úr samkeppni og nýliðun atvinnulífsins, umbreyta samfélögunum úr sjálfstæðum einingum í valdalausar verstöðvar eða útibú.

Sósíalistaflokkur Íslands rís upp gegn þessari stefnu. Markmið hans er að fella nýfrjálshyggjuna og endurreisa völd almennings yfir samfélögunum. Sósíalistaflokkurinn vill endurreisa samvinnuhreyfinguna og getu fólks til að byggja upp eigin atvinnutækifæri, flytja kvótann heim, ákvarðanir um uppbyggingu og mótun innviða og grunnkerfa samfélagsins út í byggðirnar og byggja upp öryggi í húsnæðismálum, heilbrigðismálum og félagslegum kerfum.

Það er markmið sósíalista að byggja upp samfélag sem veitir öllum öryggi og trygga afkomu. Sósíalísk byggðastefna felur í sér að þetta eigi við um alla landshluta; að fólk eigi rétt á allri grunnþjónustu samfélagsins hvar sem það býr.

Hvað er sósíalísk byggðastefna?

Með sósíalískri byggðastefnu getum við snúið áratuga löngu hnignunarskeiði við og hafið þróttmikla uppbyggingu á landsbyggðinni. Hafið löngu tímabæra uppbyggingu velferðarkerfisins með félagslegum lausnum. Sú uppbygging miðast við þarfir fólks, vonir og væntingar og er á þeirra forsendum. Sósíalísk byggðastefna er að efla pólitískt og efnahagslegt vald byggðanna.

Grundvallarstefna Sósíalistaflokksins er að fá valdið og þjónustuna heim í byggðirnar. Sósíalistaflokkurinn er landsbyggðarflokkur og sósíalísk byggðastefna er eitt af lykilstefnumálum flokksins.

Til að ná þessum markmiðið leggur Sósíalistaflokkurinn áherslu á sex verkefni:

I. Byggjum upp heilbrigðiskerfi fyrir landið allt

Við viljum byggja upp gjaldfrjálst og ríkisrekið heilbrigðiskerfi á landsbyggðinni og nýta okkur meðal annars tækniframfarir til þess. Af miklu hugviti byggði starfsfólk Landsspítalans upp rafrænt kerfi sem gerði einangrun í heimahúsum vænlega í Covid 19 farsóttinni. Það er eitt dæmi um hvernig hugvit og tækniframfarir geta aðstoðað hefðbundna starfsemi.

Við þurfum að endurskapa heilbrigðisþjónustu í dreifðari byggðum, flytja þjónustuna til fólks með bestu tækni en hætta að krefjast þess að fólk flytji nær miðstýrðum stofnunum til að fá viðunandi heilbrigðisþjónustu.

II. Kvótann heim!

Leggjum niður kvótakerfið og byggjum nýtt og lýðræðislegt kerfi.

Kvótakerfið hefur dregið mátt og vald frá byggðunum. Dregið auð og völd frá fjöldanum og flutt í hendur fámennrar auðstéttar. Þetta hefur valdið djúpstæðri spillingu og gerspillt stjórnmálastéttinni. Við viljum kvótann heim og leggja niður núverandi kerfi og færa valdið yfir auðlindum sjávar út í byggðarnar sem þá munu leita ólíkra leiða til að nýta auðlindina sem best fyrir samfélagið. Þá mun það skila margfalt meiri fjármunum í sameiginlega sjóði en veiðigjaldið gerir í dag.

III. Uppbygging félagslegs húsnæðis um allt land

Við leggjum til raunverulega lausn á húsnæðisvandanum í tilboði til kjósenda um byggingu 30 þúsund íbúða á 10 árum. Í stað þess að húsnæðismarkaðurinn sé sniðinn að þörfum fjármagnseigenda og verktaka þá verði gert stórátak í framleiðslu á ódýru og góðu íbúðarhúsnæði í félagslegum rekstri. Til að auka hreyfanleika milli landshluta er nauðsynlegt að íbúar hafi aðgengi að ódýru, félagslegu húsnæði. Það þarf að afbraskvæða leigumarkaðinn nú þegar og losa fólk undan okurleigu leigubraskaranna.

IV. Sósíalísk landbúnaðarstefna

Sósíalistar hafa þróað ítarlega landbúnaðarstefnu sem leggur áherslu á smærri og millistór býli og uppbyggingu fjölskyldurekinnar og samvinnurekinnar ferðaþjónustu. Við viljum veita afslátt á raforkuverði til gróðurhúsaræktar og setja búsetuskyldu eða aðrar takmarkanir á jarðir sem seldar eru.

Sósíalísk byggðastefna tryggir fæðuöryggi á Íslandi með stöðugri og aukinni innlendri fæðuframleiðslu og eðlilegu matvælaverði. Sósíalistar vilja auka nýsköpun í landbúnaði, sérstaklega þegar kemur að ylrækt og lífrænni framleiðslu og veita bændum hagstæð lán til þess. Áhersla verði sett á beina tengingu við býli og óþarfa milliliðir teknir burt.

Ferðaþjónusta er orðinn órjúfanlegur þáttur nútímalandbúnaðar og tryggja þarf að ekki verði gengið um of að náttúruperlum landsins.

V. Höldum vegakerfinu frjálsu

Allt vegakerfið á að vera gjaldfrjálst, kostað af ríkisvaldinu og öllum landsmönnum tryggð frjáls för um það.

Vegakerfið okkar hefur verið almannagæði að nánast öllu leyti en nú standa fyrir dyrum ákvarðanir núverandi stjórnvalda um róttæka kerfisbreytingu í anda nýfrjálshyggjunnar þar sem búast má við að allar stórframkvæmdir verði einkavæddar og vegatollar settir á. Við höfnum þeirri leið alfarið og berjumst gegn henni af öllu afli.

VI. Endurreisn samvinnuhreyfingarinnar

Árið 1882 árum tóku bændur í Þingeyjasýslum sig saman og stofnuðu samvinnufélag. Þetta var fyrsta kaupfélag landsins. Bændur uppgötvuðu að samvinna í innkaupum og sölu var rétta leiðin til að losna undan ofurvaldi kaupmanna. Upp úr þessu óx öflug samvinnuhreyfing sem Framsóknarflokkurinn komst yfir. Skemmst er frá því að segja að á vakt Framsóknarflokksins var samvinnuhreyfingin skilin eftir í rúst eftir að innanflokksmenn höfðu stolið bestu bitunum úr henni. Það gerðist eftir að flokkurinn gekk fyrir björg nýfrjálshyggjunnar.

Sósíalistaflokkurinn vill endurbyggja samvinnuhreyfingu almennings og halda Framsóknarflokknum frá henni. Það er trú okkar að samvinna og samtrygging til sjávar og sveita sé eitt öflugasta tæki alþýðunnar gegn ofurvaldi auðvaldsins.

Kosningaáætlanir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram