Tilboð Sósíalista til kjósenda í Norðausturkjördæmi

Ritstjórn Áætlanir

Erindi Sósíalistaflokksins í kosningum til Alþingis 25 september 2021
Tilboð Sósíalistaflokksins til kjósenda í Norðausturkjördæmi
BYGGJUM UPP BYGGÐIRNAR, INNVIÐI, HÚSNÆÐI OG SAMGÖNGUR


Berjumst gegn einkarekstrarvæðingu og fyrir félagslegum lausnum
Hefjum tímabil uppbyggingar með almannahag að leiðarljósi og endurreisum samfélag okkar frá botninum og upp í stað þess að blása upp blá toppinn sem sligar allt samfélagið.

Beitum félagslegum lausnum til að leysa vandamál ekki smáplástra vandamálin sem fyrir eru. Vanræksla innviðauppbyggingar er komin á mjög alvarlegt stig og við höfnum alfarið þeirri einkavæðingu sem er í farvatninu. Uppbygging heilbrigðiskerfisins á félagslegan hátt er eina lausnin sem getur lagað þann alvarlega lækna- og hjúkrunarstarfsmannaskort sem er gríðarlegt vandamál víða í kjördæminu.

Jöfnum og bætum lífskjör með félagslegu átaki í húsnæðismálum og jöfnum aðstöðumun í verslun og þjónustu. Björgum íslenskum landbúnaði frá því að verða að fáeinum stórbúum meira og minna í eigu bankanna.

Léttum skattbyrði af launafólki og bótaþegum. Hækkum skatta á þá ríku
Íslenskar ríkisstjórnir hafa sett heimsmet í skerðingum á bótaþega. Lægstu laun voru skattfrjáls fyrir 1990 en bera nú þungan skatt.

Á móti kemur hreint auðmannadekur sem lýsir sér til dæmis í því að nú má draga verðbólgu frá fjármagntekjuskattstofni, eftirlitsstofnanir eru sífellt veiktar og skattkerfið er notað til að dreifa fríðindum sem launafólki stendur ekki til boða.

Léttum skattbyrði fátækra og almenns launafólks en skattleggjum hin ríku á eðlilegan hátt og skerum niður forréttindi þeirra hvort, sem um sægreifa eða stjórnmálastétt er að ræða.

Enga einkarekstrarvæðingu í heilbrigðiskerfinu. Byggjum upp félagslegt heilbrigðiskerfi í kjördæminu
Hörmulegt dæmi um einkarekstur öldrunarheimilisins Hlíð á Akureyri er víti til varnaðar. Ljóst er að ef núverandi ríkisstjórn auk annarra hægriflokka fá brautargengi í komandi kosningum er stórfelld einkavæðingarárás á heilbrigðiskerfið yfirvofandi.

Einungis með því að byggja upp félagslega rekið heilbrigðiskerfi sem nær til alls landsins má tryggja þá þjónustu sem allir þegnar þess eiga skilið. Þannig heilbrigðiskerfi áttum við og getum byggt upp aftur með því að sameinast gegn stjórnvöldum sem á síðustu áratugum hafa rifið það niður.

Mikill skortur á læknum- og hjúkrunarfólki hrjáir dreifðar byggðir og það vandamál leysum við á þennan hátt.

Sósíalistaflokkurinn vill að á Íslandi verði gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta rekin af skattfé borgaranna.

Sjá nánar: Stefna Sósíalista í heilbrigðismálum

Gjaldfjáls Vaðlaheiðargöng! Höldum þeirri stefnu áfram að vegakerfið sé almannagæði
Vegakerfið á Íslandi, að undanþegnum Vaðlaheiðargöngum, er almannagæði. Það er að segja það hefur verið fjármagnað með útgjöldum ríkisins og allir Íslendingar eru frjálsir ferða sinna um það án þess að greiða sérgjöld fyrir. Þess vegna þurfum við að endurheimta Vaðlaheiðargöng.

Fyrirhuguð er stórfelld árás á þessi lífsgæði almennings. Einkarekstrar áform með veggjöldum og lántökum frá einkaaðilum eru aðferðirnar sem notaðar verða fyrir allar stórframkvæmdir sem fyrirhugaðar eru. Bara tímaspursmál er þangað til þessar aðferðir munu ná til Norð- Austurlands. Framsókn og VG eru forystuflokkar fyrir þessari stefnu í ríkisstjórninni.

Gegn þessu þarf að berjast af oddi og egg.

Mikil þörf er á jarðgangagerð í Norðausturkjördæmi bæði á Austurlandi og í Fjallabyggð. Við berjumst fyrir því að þau göng verði gjaldfrjáls eins og önnur göng í kjördæminu eru að Vaðlaheiðargöngum undan skyldum.

Sósíalistaflokkurinn vill að samgöngumannvirki og rekstur þeirra séu í eigu þjóðarinnar. Að jarðgöng, brýr og vegir séu öllum aðgengilegir án gjaldtöku og veggjöldum verið alfarið hafnað.

Sjá nánar: Stefna Sósíalista í samgöngumálum

Ekkert laxeldi eða vindorkuvirkjanir á forsendum auðmanna. Stöðvum uppkaup auðmanna á landi
Þröngir og skjólsælir firðir eru sjaldgæf náttúruverðmæti í heiminum. Þessi verðmæti afhenda stjórnvöld auðmönnum endurgjaldslaust undir úreltar og mengandi aðferðir við matvælaframleiðslu. Þetta er að gerast í Seyðisfirði í andstöðu við heimafólk og Eyjafjörðurinn gæti orðið næstur.

Við Þelamörk í Hörgárdal er erlent fyrirtæki að fara að reisa stóran vindmillugarð í andstöðu við heimafólk og gríðarlegur fjöldi vindmylla er fyrirhugaður á svæðum milli Langaness og Vopnafjarðar. Ekkert rafmagn vantar inná íslenska kerfið, þar er um 7% umframframleiðsla og það þarf ekki nema innan við 2% af því til að rafvæða allan bílaflota landsins.

Uppkaup auðmanna, erlendra sem innlendra á landi þarf að stöðva með setningu laga sem virka. Að nýting jarðnæðis, bújarða og landbúnaðar sé háð skilyrðum og til tiltekins tíma í senn og að enginn einstaklingur eða fyrirtæki geti safnað upp jörðum.

Sósíalistaflokkurinn vill að leyfi til auðlindanýtingar eða nýtingar á öðrum almannagæðum sé aðeins veitt að undangengnu ströngu umhverfismati og að almannahagur og sjálfbærni sé ávallt höfð að leiðarljósi.

Sjá nánar: Stefna Sósíalista í auðlindamálum

Kvótann heim. Byggjum upp og eflum byggðirnar
Við höfnum þeirri einkavæðingu sjávarútvegsauðlindarinnar sem orðið hefur og viljum innleiða fjölbreytni og valddreifingu að nýju við nýtingu fiskimiðanna.

Því fylgja aukin völd byggðanna. Þannig standa þær fjárhagslega styrkar undir þeim verkefnum sem sveitarfélögin eru nú að kikna undan og það tryggir raunverulegt sjálfstæði þeirra.

Í auðlindatilboði sósíalista er gert ráð fyrir auðlindaleigu sem rennur í sameiginlega sjóði. Það gjald verður innheimt við hafnarbakkann, er gjald fyrir notkun á auðlindinni og rennur til samfélagslegrar uppbyggingar.

Auk þess leggjum við til frjálsar handfæraveiðar og stuðning við smárekstur, uppbyggingu fiskmarkaða og uppbyggingu innviða sem þjóna smærri aðilum, bæta nýtingu, gæði og verð. En megintillagan er að færa yfirráð yfir kvótanum út í byggðirnar sem þá munu leita ólíkra leiða til að nýta auðlindina sem best fyrir samfélagið., þá mun það skila margfalt meiri fjármunum í sameiginlega sjóði en veiðigjaldið gerir í dag.

Sjá nánar: Auðlindirnar til almennings

30.000 íbúðir á 10 árum. Hefjum stórfellda uppbyggingu á félagslegu húsnæði í kjördæminu
Sósíalistaflokkurinn leggur til raunverulega lausn á húsnæðisvandanum. Í stað þess að húsnæðismarkaðurinn sé sniðinn að þörfum fjármagnseigenda og verktaka þá verði gert stórátak í framleiðslu á ódýru og góðu íbúðarhúsnæði í félagslegum rekstri. Slíkar áætlanir hafa verið framkvæmdar erlendis með góðum árangri.

Sósíalistar á Norðausturlandi munu berjast fyrir því að sveitarfélög í kjördæminu taki virkan þátt í þessari hugmynd og tryggi lóðir fyrir byggingarsamvinnufélög og önnur óhagnaðardrifin félög sem tækju að sér framkvæmdir.

Sjá nánar: Stóra húsnæðisbyltingin: 30 þúsund íbúðir á tíu árum

Jöfnun olíuverðskostnaðar. Jöfnum lífsgæði í landinu öllu
Fólk utan stærstu þéttbýlissvæða borgar mun hærra verð fyrir bensín og olíuvörur. Þetta er óþolandi mismunun og þrátt fyrir að Flutningajöfnunarsjóður sé til viðist hann ekki virka til að jafna verðlag og hlutverk hans þess vegna dularfullt. Grípa þarf til ráðstafana til að jafna verð og tryggja að ríkisframlög til olíufyrirtækjanna skili tilætluðum árangri.

Á mörgum öðrum sviðum er sama upp á teningnum eins og í verslun og þjónustu og matvælaverð getur orðið afar hátt. Jöfnum lífsgæði með félagslegum lausnum þannig að sem flestir geti notið þeirra.

Eflum landbúnað og hag bænda
Mikið hefur þrengt að efnahag bænda. Leyfis- og eftirlitsgjöld og aðföng hafa hækkað án þess að tekjur hafi fylgt eftir. Fyrir liggur að breyta verður öllum fjósum landsins í lausagöngufjós og er þá ætlast til að búum fækki og þau stækki til muna. Í Norðaustur kjördæmi er fjöldi smærri kúabúa sem stefnir í að leggist af ef ekkert verður að gert. Sauðfjárframleiðsla er í þeirri stöðu að nær ekkert sauðfjárbú er rekið án þess að bændur sæki sér tekjur utan bús. Þessi bú eru sveitir landsins.

Stuðningur við þennan rekstur þannig að hann geti blómstrað og jafnframt rutt nýjar brautir er ekki einungis málefni bænda heldur er hann málefni alls almennings þar sem mikilvægt er að halda landinu öllu í byggð og þar leika bændur lykil hlutverk.

Sósíalistaflokkurinn vill að bændum séu tryggð mannsæmandi kjör og starfsskilyrði.

Sjá nánar: Stefna Sósíalista í landbúnaðar- og matvælamálum

Kosningaáætlanir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram