Skattleggjum hin ríku

Ritstjórn Áætlanir

Erindi Sósíalistaflokksins í kosningum til alþingis 25. september 2021: Fjórða tilboð til kjósenda lagt fram um hvítasunnu:

SÓSÍALÍSK SKATTASTEFNA I. HLUTI:
Skattleggjum hin ríku

Niðurbrot skattkerfisins á nýfrjálshyggjuárunum var gagnbylting hinna ríku, stefnt gegn hugmynd eftirstríðsáranna um velferðarríkið. Sú umbylting flutti ekki aðeins stórkostlega fjármuni úr almannasjóðum yfir til auðfólks, heldur stór jók við skattbyrði meginþorra almennings og margfaldaði gjaldtöku fyrir opinbera þjónustu. Hin allra auðugustu sluppu við skatta og urðu miklu ríkari. Og almenningur borgaði brúsann. 

Skattalækkanir til hinna auðugu voru réttlættar með því að lægri skattar á fjármagns- og fyrirtækjaeigendur myndu örva svo hagkerfið að allir myndu hagnast. Þetta er hin svokallaða brauðmolakenning, dellukenning sem er fyrir löngu fallin. Til viðbótar var því haldið fram að með lágum sköttum myndu skatttekjur aukast þar sem skattaundanskot myndu minnka. Reynslan var þveröfug, fjármagnið í skattaskjólum jókst til muna á nýfrjálshyggjuárunum. Lægri álögur á hin ríku gerðu ekkert nema að auka við auð hinna ríku. Afleiðingin var veikari staða almannasjóða. Þeirri stöðu var síðan mætt með sölu eigna almennings, einkavæðingu, útvistun opinberrar þjónustu, aukinni gjaldtöku og skattahækkun á launafólk og almenning, einkum þau með miðlungstekjur og lægri tekjur.

Það er eðli kapítalísks hagkerfis að það flytur linnulaust fé frá þeim sem lítið eða ekkert eiga til þeirra sem eiga mikið og vilja ætíð eignast meira. Skattkerfi eftirstríðsáranna var ætlað að vinna gegn þessari ónáttúru, að verja samfélagið gegn alræði auðvaldsins. Tækin voru stighækkandi skattar; að skattleggja sérstaklega auð, ofurtekjur og stærð og umfang á markaði. Nýfrjálshyggjan braut þetta kerfi niður og sleppti auðvaldinu lausu á samfélagið, magnaði upp auð og völd hinna ríku og molaði niður völd almennings.

En nú er nýfrjálshyggjan fallin sem hugmyndastefna og enginn heldur fram brauðmolakenningunni kinnroðalaust. Það er því engin ástæða til að viðhalda skattakerfi sem byggir á grunni nýfrjálshyggjunnar. Grunnforsenda réttláts samfélags, sem byggt er upp af hagsmunum almennings, er að fella skattastefnu grimmdarhagkerfis hinna fáu og byggja upp skattastefnu sem hentar kærleikshagkerfi fjöldans. Fyrsta markmið þeirrar stefnu er að vinna gegn auðsöfnun og skattleggja hin ríku.

I. Skattleggjum hin ríku:
Auðlegðarskattur

Til að vinna gegn óréttlæti kapítalismans, sem sífellt flytur fé frá fjöldanum til hinna fáu, er nauðsynlegt að setja á auðlegðarskatt. Auðlegðarskattur er eignaskattur sem leggst á eignir umfram það sem telja má eðlilega eign vel setts millistéttarfólks í lok starfsævinnar. Auðlegðarskattur þarf að vera þrepaskiptur, frá 2% á hreina eign umfram 200 m.kr. hjá hjónum upp í 9% hjá hjónum sem eiga meira en 10 milljarða króna. Ætla má að innan við 1% skattgreiðenda muni greiða auðlegðarskatt, rúmlega 99% landsmanna munu engan slíkan skatt greiða.

Eignaskattar eru elstu skattar á Íslandi. Tíund þjóðveldisaldar var eignaskattur. Eignaskattar voru lagðir á hérlendis í rúm 900 ár, allt þar til að öfgatrú nýfrjálshyggjunnar úrskurðaði þá óréttláta. Auðlegðarskattur var lagður á hér tímabundið eftir Hrun, meðal annars til að ná að skattleggja eftir á hluta af ógnargróða bóluáranna. 

Markmið auðlegðarskatts í dag væri að skattleggja þann auð sem hin ríku hafa safnað upp vegna skattaumbyltingar nýfrjálshyggjuáranna, að endurheimta hluta af þeim auð sem þau sóttu í almannasjóði. Þetta er því skattlagning á óeðlilegri auðsöfnun við annarlegar aðstæður. Ráðagerðir nýfrjálshyggjuáranna um stórfellda skattalækkun til handa fjármagns- og fyrirtækjaeigendum voru aldrei lagðar fyrir þjóðina enda hefðu kjósendur þá hafnað þeim. Nú er tíminn til að sýna þann vilja í verki.

I. Skattleggjum hin ríku:
Fjármagnstekjur og hátekjuþrep

Á nýfrjálshyggjuárunum voru fjármagnstekjur aðgreindar frá öðrum tekjum og skattar á þær lækkaðir. Í dag er jaðarskattur launatekna 46,25% en jaðarskattur fjármagnstekna meira en helmingi lægri, 22%. Lægst launaða fólkið á vinnumarkaði greiðir nánast sama hlutfall tekna sinna í skatt og allra auðugustu fjármagnseigendurnir. Launatekjur bera útsvar en fjármagnstekjur ekki. Fátæki öryrkinn og eftirlaunakonan greiða útsvar til síns sveitarfélags en allra ríkasti fjármagnseigandinn ekki krónu.

Þetta er óréttlæti sem verður að leiðrétta. Fjármagnstekjur eiga að bera sama skatt og launatekjur og skattstiginn á að vera þrepaskiptur og brattur. Hátekjuskattur á fyrst og fremst erindi þegar fjármagnstekjur og launatekjur hafa verið felldar undir sama skattkerfi og eru skattlagðar saman. Með samsköttun allra tekna myndi almenningur með litlar fjármagnstekjur njóta skattalækkunar vegna persónuafsláttar núgildandi skattareglna um fjármagnstekjuskatt.

Á eftirstríðsárunum, miklum hagvaxtartíma, voru jaðarskattar þessara tekna um og yfir 90% í okkar heimshluta. Í fyrstu skrefum má setja inn 60% skatt á tekjur umfram 5 m.kr. á mánuði, 75% þrep á tekjur umfram 20 m.kr. á mánuði og 90% þrep á tekjur umfram 50 m.kr. á mánuði.

I. Skattleggjum hin ríku:
Erfðafjárskattur

Erfðafjárskattur er í grunninn tekjuskattur. Þau sem erfa fá til sín eignir og fjármuni og það ber að skattleggja sem aðrar tekjur. Þetta er grunnreglan. Það er hins vegar samkomulag um það í samfélaginu að undanskilja eigi eðlilegan arf frá einni kynslóð til þeirrar næstu frá skattheimtu, að virða eigi stuðningskerfi innan fjölskyldnanna. Þetta er í anda skattkerfis eftirstríðsáranna. Þá var jaðarskattur erfðafjárskatts, efsta skattþrepið, sambærilegt og efstu þrep teljuskatts einstaklinga og fyrirtækja.

Lækkun erfðafjárskatts á nýfrjálshyggjuárunum hefur fyrst og síðast komið hinum ofsaríku vel, búið til erfðastétt auðfólks sem erfir ekki aðeins mikil auðæfi heldur þau völd og samfélagsstöðu sem þeim fylgir. Hækkun erfðafjárskatts eru því eðlileg varnarviðbrögð lýðræðiskerfis almennings, vörn gegn því að samfélag okkar breytist aftur í lénsveldi erfðastéttarinnar.

Skattþrep erfðafjárskatts eiga að vera þau sömu og tekjuskatts. Skattleysismörk ættu hins vegar að miðast við gott íbúðaverð. Ef þú erfir 75 m.kr. þá væru 60 m.kr. skattfrjálsar og 15 m.kr. bera venjulegan tekjuskatt. Þú greiddir þá 4,8 m.kr í erfðafjárskatt og héldir eftir 70,2 m.kr.. Sá sem erfir hins vegar 20 milljarða myndi greiða eftir sömu reglum og skattþrepunum hér að ofan 17,8 milljarða króna í erfðafjárskatt og halda eftir 2,2 milljörðum króna. Í dag myndir þú borga 7 m.kr.  í erfðafjárskatt og halda eftir 68 m.kr. en sá sem erfði auðinn borga rétt tæpa 2 milljarða en halda eftir rétt rúmlega 18 milljörðum, greiða aðeins um 10% skatt.

I. Skattleggjum hin ríku:
Tilboð sósíalista

Fjórða tilboð sósíalista til kjósenda vegna kosninganna í haust um endurreisn skattheimtu á hin ríku snýst um að leggja á auðlegðarskatt til að endurheimta það sem auðugasta fólkið náði út úr sameiginlegum sjóðum á nýfrjálshyggjuárunum, að skattleggja fjármagnstekjur með sama hætti og launatekjur, setja á hátekjuþrep og skattleggja arf með sama hætti og aðrar tekjur ef hann er umfram verð á góðri íbúð.

Tilgangur þessa er ekki aðeins tekjuöflun fyrir ríkissjóð og sveitasjóði heldur að auka réttlæti og valddreifingu innan samfélagsins. Óheftur kapítalismi sem skattkerfið vegur ekki á móti býr til alræði auðvaldsins, samfélag óréttlætis og grimmdar. Skattkerfið er því tæki til að innleiða meiri kærleika, sátt og réttlæti.

En þetta er ekki nóg. Hin auðugu hafa óteljandi leiðir til að koma sér hjá skattgreiðslum, bæði innan götóttra laga og með því að fela eignir, falsa tekjur og koma sér undan skattgreiðslum með öðrum hætti. Lágir skattar á hin auðugustu er aðeins annar armur skattastefnu grimmdarhagkerfisins. Hinn er mýgrútur undanþága og slælegt skatteftirlit.

Annað markmið skattastefnu hins sósíalíska skattkerfis er því að loka götunum í skattkerfinu og stórefla skatteftirlit með stórfyrirtækjum og hinum auðugu.

Hér má lesa II. hluta tilboðsins:
Stöðvum skattaundanskot

Samþykkt á sameiginlegum fundi framkvæmda- og málefnastjórna Sósíalistaflokks Íslands laugardaginn fyrir hvítasunnu, 22. maí 2021

Kosningaáætlanir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram